17.2.2006 23:43

Föstudagur, 17. 02. 06.

Skrifa þetta frá London en þangað flaug ég síðdegis á leið á Schengen-ráðherrafund í Brussel auk þess sem ég ætla að hitta sérfróða menn um öryggismál hér í London og um Evrópumál í Brussel. Fyrir hádegi flutti ég ræðu um löggæslumál og svaraði fyrirspurnum á fundi sveitarstjórnarmanna og þingmanna Sjálfstæðisflokksins í Valhöll.

Les á mbl.is: Í nýrri könnun tímaritsins Frjálsrar verslunar kemur fram að Morgunblaðið er í hópi tíu vinsælustu fyrirtækja landsins og er það í fyrsta sinn sem blaðið er í þeim hópi. Fjölmiðlafyrirtækið 365 miðlar er í 23.-26. sæti. DV er efst á lista yfir þau fyrirtæki sem neikvætt viðhorf er til og 365 miðlar eru þar í tíunda sæti.

Ekkert um óvinsældir Baugsmiðilsins DV kemur mér á óvart og ekki hefur blaðið batnað neitt undir nýjum ritstjórum og enn má lesa um sorg fólks vegna þess, hvernig blaðið tekur á viðkvæmum einkamálum. Hvers vegna skyldi Baugsveldið telja sér til framdráttar að halda þessu blaði úti í þessum búningi?