Miðvikudagur, 15. 02. 06.
Svaraði í dag Söndru Franks, varaþingmanni Samfylkingarinnar, sem spurði mig um netsíur gegn barnaklámi og sagði ég lögregluna líta til fyrirmynda í Noregi, auk þessum unnið væri að því að fullgilda samning Evrópuráðsins um glæpi í netheimum, sem mundi veita nýjar lögheimildir. Ég hafði ekki fyrr sest við tölvuna heima hjá mér en til mín kom t-bréf frá manni, sem sagðist sérfróður um t-öryggismál, og taldi tóma vitleysu, að unnt yrði að setja upp nokkrar síur, með því væri verið að kasta peningum út í vindinn. Sakaði hann mig um vilja til ritskoðunar í anda kínverskra stjórnvalda. Þá vissi ég það.
Ég fór í síðdegisútvarpið á rás 2 klukkan 17.05 og ræddi þar um frumvarpið til breytinga á kynferðisbrotakafla almennra hegningalaga og frumvarpið um nýskipan lögreglumála. Síðan náði fréttamaður RÚV tali af mér um vændi og sameiginlega forsjá, ólík efni, sem bæði eru þó til umræðu vegna frumvarpa frá mér. Ég skrifaði reyndar grein í Morgunblaðið í dag um sameiginlega forsjá. Í því máli virðist mér mega greina afstöðumun á milli lögfræðinga og félagsfræðinga - margir lögfræðingar virðast vilja halda í óbreytt ástand en félagsfræðingar vilja breytingar. Frómt frá sagt held ég, að félagsfræðingar hafi rannsakað þessi mál meira í seinni tíð en lögfræðingar. Raunar velti ég því fyrir mér, hvort lögfræðingar séu ekki að seilast of langt inn á svið utan lögfræðinnar með því að líta á sig sem sérfróða menn um félagsfræðileg úrlausnarefni við sambúðarslit.
Ég var einnig spurður um vændi af fréttamanni RÚV. Ég sagði rétt, að með frumvarpinu, sem ég hefði kynnt, væri lagt til að fella úr lögum ákvæði um, að ástundun vændis til framfærslu væri refsiverð. Höfundur frumvarpsins hefði ekki trú á því, að refsiákvæði dygðu til að glíma við hinn félagslega vanda, sem knýr fólk til vændis - það væri ástæðulaust að viðhalda þeirri blekkingu og takast frekar á við vandann á félagslegum forsendum. Eru þetta ekki góð rök? Þau eru að minnsta kosti skynsamlegri í mínum eyrum heldur rök Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns vinstri/grænna, og fleiri um, að okkur sé lífsnauðsynlegt að taka hér upp reglu, sem sett var í Svíþjóð til að sporna gegn götuvændi og mansali þar í landi - er glímt við mansal og götuvændi hér á landi? Ég veit ekki til þess - hvers vegna þurfum við þá innfluttar lagareglur, sem eru sérsniðnar til slíkrar glímu?
Ég sé, að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, er að kveinka sér undan því, að ég birti frumvarp um kynferðisbrot, áður en starfshópur á vegum ráðuneytisins, þar sem hann situr meðal annarra, skilar áliti. Þessi hópur vissi vel um vinnu Ragnheiðar Bragadóttur og hafði öll tækifæri til að ljúka störfum á undan henni - að hún og frumvarp hennar ætti að vera í gislingu vegna skýrslu þessa hóps er fráleitt og hefur aldrei komið til umræðu, auk þess sem skýrslan um vændi birtist væntanlega áður en kynningarfrestur vegna frumvarpsins líður.