Laugardagur, 11. 02. 06.
Var klukkan 12.00 við Björgunarmiðstöðina Skógarhlíð og klippti þar á borða með fleirum við upphaf aksturs lögreglu, slökkviliðs og björgunarbíla um götur borgarinnar í tilefni 1-1-2 dagsins.
Á vefsíðunni ruv.is segir: „3.560 manns höfðu kosið í prófkjöri Samfylkingarinnar og óháðra í Reykjavík rétt fyrir klukkan sex. Formaður kjörnefndar segir þátttökuna fara fram úr björtustu vonum. Ef utankjörfundaratkvæði eru tekin með þá hafa rúmlega 4.200 greitt atkvæði.“
Ég skil ekki, hvernig þessi þátttaka í galopnu prófkjöri Samfylkingarinnar getur farið „fram úr björtustu vonum“ - hvað skyldi formaður kjörstjórnar hafa haldið, að margir myndu koma á kjörstað? Ritstjóri ruv.is tekur undir gleðina með því að setja í fyrirsögn fréttarinnar, að kjörsókn hafi verið „góð“. Á alla venjulega kvarða er þetta lítil kjörsókn og þó sérstaklega með hliðsjón af því, að Samfylkingin vill bera sig saman við Sjálfstæðisflokkinn, þar sem þátttakendur í flokksbundnu prófkjöri voru um 12.000 - til að slaga upp í það þurfa sjö til átta þúsund að kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar á morgun.