19.2.2006 14:57

Sunnudagur, 19. 02. 06.

Ellefu ára afmælisdagur síðunnar bjorn.is er í dag og minnist þess í pistli, sem ég sendi frá mér í gær.

Það var heldur svalt í London fram yfir hádegi og var farið að rigna, þegar ég hélt þaðan til Brussel.

Lengi höfum við sjálfstæðismenn spáð því, að uppboðsstefna R-listans á lóðum undir forystu Samfylkingarinnar mundi bíða skipbrot og nú sýnist sú spá hafa ræst, ef marka má fréttir um, að Árni Þór Sigurðsson, vinstri/grænum, og sjálfur Alfreð Þorsteinsson Framsóknarflokki hafi snúist gegn stefnunni af þunga, eftir að í ljó kom, að sami byggingarverktakinn keypti 39 af 40 lóðum undir einbýlishús við Úlfarsfell.

Þegar R-listinn samdi um sölu lóða til verktaka á Norðlingaholti hét hann því, að úthluta ekki lóðum á lægra verði annars staðar - sala lóða í Grafarholti byggðist einnig á því að ná í sem mesta peninga. Öll lóðaskortsstefna R-listans hefur byggst á því að úthluta sem minnstu til að ná í hæst verð. Þetta höfum við sjálfstæðismenn bent á í mörg ár og nú springur þessi stefna framan í höfunda sína og þeir eru misjafnlega fljótir að hlaupa frá borði.

Í dag birtist viðtal við mig í Fréttablaðinu, þar sem ég segi frá störfum Evropunefndar.