Fimmtudagur, 23. 02. 06.
Mér heyrðist, að Össur Skarphéðinsson væri að fjargviðrast yfir því á alþingi í dag, að Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, gæfi ekki fjármálaeftirlitinu fyrirmæli um rannsókn á sölu Búnaðarbankans. Á sínum tíma ruku samfylkingarmenn upp á nef sér á þingi yfir því, að ég teldi réttarkerfið ekki hafa sagt sitt síðasta orð í Baugsmálinu. Var sú staðhæfing jafnvel talin fela í sér einhver fyrirmæli til dómstóla!
Málflutningi vegna átta ákæruatriða í Baugsmálinu lauk fyrir héraðsdómi í dag, en skýrslutaka og yfirheyrslur fyrir dómi hófust síðastliðinn mánudag. Ljósvakamiðlarnir gefa lélega mynd af því, sem hefur verið að gerast í réttarsalnum - raunar er Morgunblaðið eini fjölmiðillinn, sem veitir almenningi nokkra sýn á málið.
Baugsmiðillinn DV, sem lifir á viðfangsefnum dómstólanna, leiðir þetta stóra mál hjá sér.
Skrýtið var að lesa greinar þeirra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, í Morgunblaðinu í dag í tilefni af mati fyrirtækisins Fitch á þróun peningamála hér á landi. Það var engu líkara en blessað fólkið hefði himin höndum tekið, af því að Fitch lét ekki lengur við það eitt sitja, að hér væri allt eins og best yrði á kosið. Viðbrögðin sönnuðu enn, hve þessir stjórnmálamenn hafa lítið til málanna að leggja - þeir sitja og bíða eftir, að eitthvað fari úr skorðum til að geta gert sér einhvern mat úr því. Hvar er frumkvæði þessara forystumanna?
Ég flutti erindi um stjórnskipun og stjórnsýslu í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins klukkan 19.00 og svaraði fjölmörgum spurningum nemenda fram til klukkan 20.00.