Sunnudagur, 26. 02. 06.
Fréttablaðið birtir í dag frásögn af bústað breska forsætisráðherrans að Downing stræti 10 í tilefni af því, að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra var þar á dögunum. Ég var beðinn að segja eitthvað um húsið í blaðið, en hafði ekki tök á því. Hefði ég gert það, stæði þar líklega ekki, að Geir Hallgrímsson hefði verið þar árið 1974, því að hann var þar árið 1976.
Ég veit hins vegar ekki, hvort ég hefði haft tök á að leiðrétta það, sem mér sýndist haft eftir Steingrími Ólafssyni, upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, en hann segir mér, að sé hugarsmíð Fréttablaðsins, að Halldór Ásgrímsson sé „þriðji starfandi forsætisráðherra Íslands sem kemur í Downing-stræti.“
Ólafur Jóhannesson, forsætisráðherra 1971 til 1974, fór til London um miðjan október 1973 og hitti Edward Heath, forsætisráðherra Breta, í Downing stræti, þar sem þeir sömdu um lausn á deilunni vegna 50 mílna útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Myndir í blöðum og bókum sýna Ólaf á þessum sögufræga stað.
Raunar má velta því fyrir sér, hvaða máli það skiptir í raun, hvort fleiri eða færri starfandi forsætisráðherrar Íslands hafi verið í Downing stræti, en úr því að lagst er í pælingar af því tagi, sérstaklega sé það er gert af hálfu opinberra talsmanna, ætti að leita af sér allan grun um hið rétta, áður en yfirlýsingar eru gefnar. Fyrst gleymdist heimsókn Steingríms Hermannsonar í húsið árið 1988 og í dag gleymir Fréttablaðið því, að Ólafur Jóhannesson var þar 1973.
Var klukkan 13.30 í Silfri Egils og ræddum við Egill einkum múslíma. Mið-Austurlönd, fjölmenningarsamfélagið og stöðu öryggismála í þessu ljósi.