9.2.2006 21:43

Fimmtudagur, 09. 02. 06.

Stundum er ástæða til að undrast, hve fjölmiðlamenn á fundum alþingis eða borgarstjórnar virðast hafa litla tilfinningu fyrir því, sem lýsir pólitísku ástandi. Þeir eru uppteknir af hinum hefðbundna ágreiningi milli meiri og minni hluta virðast ekki skynja strauma innan einstakra fylkinga. Þannig hef ég ekki tekið eftir því neins staðar nema á borgarstjórnarsíðu sjálfstæðismanna www.betriborg.is , að sagt sé frá þeirri vandræðalegu stöðu, sem varð á síðasta borgarstjórnarfundi, þegar fellt var á jöfnu að taka þar til meðferðar tillögu sjálfstæðismanna um aðferð við úthlutun lóða á nýju byggingarsvæði við Úlfarsfell. Tillaga sjálfstæðismanna gekk í sömu átt og hugmyndir Árna Þórs Sigurðssonar, borgarfulltrúa vinstri grænna, sem sat hins vegar hjá við dagskrártillöguna og kom þannig í veg fyrir, að unnt yrði að álykta í borgarstjórn til stuðnings sjónarmiðum hans sjálfs. Staðfestir þetta enn, hve vinstri/grænir eru aumir í borgarstjórn, enda er fylgi þeirra í könnunum í samræmi við það.

Í gær héldu þau þrjú, sem sækjast eftir fyrsta sæti á borgarstjórnarlista Samfylkingarinnar, opinn fund á NASA til að kynna sjónarmið sín og svara spurningum. Jón Baldvin Hannibalsson var meðal fundarmanna og steig undir lófataki í ræðustól. Af því tilefni birtist eftirfarandi frétt í sjónvarpinu kl. 22.00 miðvikudaginn 8. febrúar:

„Samgöngumál voru einnig rædd á fundinum og lagði Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, fram þessa spurningu.

Jón Baldvin Hannibalsson: Hvernig getið þið hugsað ykkur þegar að þið horfið dálítið fram í tímann að bæta fyrir áratuga vanrækslusyndir Sjálfstæðisflokksins varðandi umferð í Reykjavík og almanna samgöngur sem að tryggja það að við getum komist leiðar okkar.

Stefán Jón Hafstein: Jón Baldvin, það eru ekki áratuga vanrækslusyndir Sjálfstæðisflokksins sem að leiða til þess hvernig almenningssamgöngukerfið er í dag. Við erum búin að stjórna í 12 ár. Við höfðum öll tækifæri. Reykvíkingar vilja aka í einkabílum.“

Hér ber að geta þess, að Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið erlendis undanfarin ár sem sendiherra í Washington og Helsinki, þó var R-listinn kominn til valda, þegar hann hélt utan. Nú saknar hann þess greinilega, að eiga ekki auðvelt með að fara í strætó og vill skella skuldinni á sjálfstæðismenn. Er þakkarvert, að Stefán Jón skyldi hressa upp á minni Jóns Baldvins og segja honum, hverjir hafa stjórnað Reykjavík síðustu 12 ár og einnig, að Reykvíkingar vilji aka í einkabílum. Steinunn Valdís sagði einkabílnum hins vegar stríð á hendur og sagðist  sko ekki ætla að gefast upp andspænis honum.