14.2.2006 20:55

Þriðjudagur, 14. 02. 06.

Fyrsta umræða var um frumvarpið um nýskipan lögreglumála á alþingi í dag og hef ég sett framsöguræðu mína hér inn á síðuna. Almennt lofuðu þingmenn, hvernig staðið var að gerð frumvarpsins og við hve marga var rætt í aðdraganda þess. Í raun var ekkert deilt um meginbreytingar samkvæmt frumvarpinu. Hitt vakti meiri umræður, sem segir um að á vegum ríkislögreglustjóra skuli starfa rannsóknardeild og greiningardeild, sem meðal annars hefur það hlutverk að meta hættu á glæpum og hryðjuverkum. Drógu stjórnarandstöðuþingmenn alls kyns ályktanir af þessari grein í umræðunum og töldu, að þarna væri um leyniþjónustu eða öryggislögreglu að ræða.

Ég andmælti því og benti á, að í skýrslu verkefnisstjórnar um nýskipan lögreglumála væri einmitt vikið að því, að ætti að setja hér á fót öryggislögreglu, yrði að setja um það sérstök lög og eftirlitskerfi. Það fælist ekki í þessum tillögum. Ég minnti á, að í umræðum um almenna löggæslu óskuðu allir eftir grenndar- eða hverfalögreglu - hvers vegna? Jú, vegna þess, að þeir, sem störfuðu við slíka löggæslu, ættu auðvelt með að greina breytingar í því skyni að koma í veg fyrir afbrot - þeir þekktu sitt hverfi og íbúa þess og gætu á grundvelli þekkingar sinnar dregið úr líkum á afbrotum. Líta mætti á hlutverk greiningardeildar í þessu ljósi, nema verkefni hennar væri að greina hættur, sem steðjuðu ekki endilega að einu hverfi heldur landinu öllu, og til að hafa sem besta yfirsýn ætti deildin að eiga samstarf við erlenda starfsbræður og hafa sambærilegar heimildir og þeir.

Undir lok umræðunnar kom til orðaskipta milli mín og Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns og varaformanns Samfylkingarinnar, og lýsti ég sömu skoðun og áður, að málflutningur þingmannsins væri á þann veg, að ekki væri unnt að eiga við hann málefnalegar umræður og myndi ég láta hjá líða að svara ræðu hans. Hann sté þá í ræðustól, sakaði mig um einelti og endurtók spurningar sínar. Ég sagði þær þess eðlis, að þeim mætti öllum svara í þingnefnd fyrir utan eina, það er að ég hefði talað á ósæmilegan hátt um mannréttindadómstól Evrópu á 50 ára afmæli mannréttindasáttmálans og væri með afdankaðar skoðanir í því efni. Ég sagði þetta alrangt, hingað hefði til dæmis komið danskur prófessor til að ræða þessi mál á sömu forsendum sl. haust og á síðasta ári hefðu dómsmálaráðherrar Norðurlanda rætt dómstólavæðinguna á fundi sínum, það er þá áráttu dómstóla einkum alþjóðadómstóla að taka sér lagasetningarvald.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun kynnti ég frumvarp, sem Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við Háskóla Íslands, hefur samið um breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Verður frumvarpið til kynningar á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, þar til ég tek ákvörðun um endalega gerð þess og framlagningu á alþingi um 8. mars.

Tvö atriði frumvarpsins hafa þegar vakið gagnrýni. Það er, að ekki er lagt til, að kynferðisbrot gegn börnum fyrnist ekki, en fyrir þeirri niðurstöðu eru færð góð lögfræðileg rök í ítarlegri greinargerð með frumvarpinu. Hitt er, að ekki skuli farin svonefnd sænsk leið í vændismálum, það er að gera kaup á vændi refsiverð. Svíar eru eina þjóðin, sem hefur lögfest þetta. Tilgangurinn var að draga úr líkum á mansali og götuvændi. Þjóðir við austanvert Eystrasalt íhuga, hvort þær eigi að fara sömu leið. Engar rannsóknir sýna, að þessi leið dragi úr vændi í Svíþjóð, þótt ekki sé það eins sýnilegt. Ef við glímdum við vanda vegna mansals eða götuvændis, kynnu að vera rök fyrir að ræða vændismál hér á sama grunni og gert er í Svíþjóð eða við austanvert Eystrasalt. Við glímum hins vegar ekki við þennan vanda. Spurning er, hvort talsmenn sænsku leiðarinnar hér á landi séu að þóknast sænskum þrýstingi með viðhorfi sínu, hann er vissulega fyrir hendi. Ég hef ekki séð rökin fyrir því, að taka upp sænska lausn á vændi þar í landi hér á Íslandi, þar sem þessi vandi er ekki.

Svíar taka að sjálfsögðu mið af sinni reynslu og við af okkar. Der Spiegel birti í gær viðtal við Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, vegna skopmyndamálsins. Blaðið spyr, hvort forsætisráðherrann hafi ekki gert mistök í málinu. Fogh Rasmussen segist ekki álíta, að dönsk stjórnvöld hefðu getað hagað sér á annan veg.

Spiegel: Hvers vegna gagnrýndi þá sænski starfsbróðir þinn Goran Persson þig og sagði, að hann hefði aldrei vanmetið svona ástand?

Fogh Rasmussen: Í fyrsta lagi er hann ekki í minni stöðu. Í öðru lagi mundi ég aldrei blanda mér í neitt innanríkismál í Svíþjóð. Og í þriðja lagi er mér það sérstakur heiður, að sænskir sósíal demókratar skuli ráðast á mig - það er til marks um að stefna okkar er rétt.