Miðvikudagur, 22. 02. 06.
Sagt var frá því i fréttum, að fundur Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra með Tony Blair, forsætisráðherra Breta, væri fyrsti fundur íslensks forsætisráðherra með breskum starfsbróður sínum í Downing-stræti síðan Geir Hallgrímsson var þar í febrúar 1976 til að ræða við Harold Wilson um lausn á síðasta þorskastríðinu.
Ég var með Geir í þeirri ferð og sat fundi í Downing stræti en einnig í skrifstofu Wilsons í breska þinginu auk þess sem hann bauð til hádegisverðar að sveitarsetri breska forsætisráðherrans, Chequers. Ég sá í bókabúð í London nýjar dagbækur aðstoðarmanns Wilsons og þar var þessara funda Geirs og Wilsons getið oftar en einu sinni.
Kannski rekst einhver blaðamannanna, sem er að fylgjast með Halldóri í London á þessa bók og birtir okkur þá kafla úr henni, þar sem sagt er frá fundum þeirra Geirs og Wilsons.
Wilson sagði af sér embætti forsætisráðherra skömmu síðar og er mönnum enn ráðgáta, hvers vegna hann ákvað að gera það á þessum tíma og er nú verið að sýna sjónvarpsmynd um aðdraganda afsagnarinnar.
Stjórnmálasagan verður oft tilefni sjónvarpsmynda eða leikrita, þó átti ég ekki von á, að nokkrum hefði dottið að gera leikrit um stofnun og upphafsár Evrópusambandsins, en slíkt leikrit er nú sýnt í Hampstead-leikhúsinu í London. Ég gaf mér ekki tíma til að sjá það, enda gæti ég ímyndað mér, að margt efni annað væri meira spennandi - en leikritið byggist á störfum Roberts Schumanns, utanríkisráðherra Frakka, á sjötta áratugnum, sem ásamt Jean Monnet er talinn höfuðarkitekt Evrópusambandsins.