25.2.2006 7:39

Laugardagur, 25. 02. 06.

Morgunblaðið birtir í dag grein eftur Morten Eriksen, saksóknara efnahagsbrotadeildar norsku lögreglunnar. Hann ræðir um þann dóm hæstaréttar að vísa frá 32 ákæruatriðum í Baugsmálinu. Norski saksóknarinna segir meðal annars:

„Sjálfstæði og hlutleysi fjölmiðla má ekki verða fyrir skakkaföllum þó upp komi grunur um refsiverða háttsemi eigenda þeirra en þetta er erfið staða og jafnvægisþraut sem blaðamönnum fréttamiðla tekst ekki alltaf jafnvel að leysa. Í því sambandi má benda á ægivald Silvios Berlusconis forsætisráðherra Ítalíu yfir ítölskum fjölmiðlum. Og að baki spinna vef sinn fjölmiðlaráðgjafar sem reyna að hafa áhrif alls staðar sem þeir ná til. Þannig er daglegt líf víða um heim.

Þrátt fyrir þetta má það ekki hafa nein áhrif á niðurstöður sakamála hvort hinir ákærðu hafi áhrif í stjórnmálum, fjölmiðlum eða atvinnulífi. Jafnt háir sem lágir eiga að njóta sama réttlætis og þar með talið að því er varðar refsingu.

Ástæðulaust er þó að vera með einhvern barnaskap. Í öllum samfélögum sjáum við að reynt er bæði að beita og misbeita völdum. Það fer eftir getu réttarríkisins til þess að sýna hlutleysi hvort það tekst eða ekki þegar sakamál eru tekin til meðferðar fyrir dómstólum.

Hinar ýmsu hliðar Baugsmála verða örugglega árum saman umfjöllunarefni, jafnt í fjölmiðlum sem á almennum og faglegum vettvangi. Það er styrkur lýðræðisins. Umræður, gagnrýni og sjálfsgagnrýni eru nauðsynlegar forsendur réttarríkisins og lýðræði í reynd. Ég ber mikla virðingu fyrir Hæstarétti Íslands sem hefur af mikilli samviskusemi metið þau atriði sem honum voru fengin til úrlausnar.

Það þarf þó engu að síður að fjalla um niðurstöðu hans. Verði eftir henni farið í öðrum ríkjum mun hún hafa umfangsmikil áhrif hvað meginreglur varðar, langt út yfir það sem Baugsmál snúast um, og gengur ótvírætt þvert á almennar kröfur um gerð ákæra á Norðurlöndum. Hvert ríki setur sér löggjöf en á mikilvægustu sviðum höfum við alltaf átt það margt sameiginlegt að samanburður getur verið gagnlegur, ekki síst vegna hinna mörgu alþjóðlegu tenginga.“

Í vikunni vakti miklar umræður, þegar matsfyrirtækið Fitch benti á það, sem mætti betur fara í íslensku efnahagslífi. Allir fjölmiðlar birtu fréttir um málið og rætt var við fjölda manns til að fá rök með og á móti. Aðfinnslum norska saksóknarans má líkja við gagnrýni Fitch, þótt þær séu á öðru sviði. Morgunblaðið birti þó ekki sérstaka frétt um aðfinnslurnar eins og oft er gert í tilefni af aðsendum greinum.

Sama dag og grein norska saksóknarans birtist í Morgunblaðinu var ekki minnst á hana í vef- og ljósvakamiðlum Baugs.

Baugsmálið hefur margvíslega skírskotun. Traust til íslensks athafnalífs utan lands og innan er í húfi. Morten Eriksen áréttar, að málið snúist einnig um traust til íslenska réttarkerfisins. Af verjendum í Baugsmálinu var þess krafist, að ég yrði lýstur vanhæfur til að setja ríkissaksóknara. Norski saksóknarinn segir: „Umræður, gagnrýni og sjálfsgagnrýni eru nauðsynlegar forsendur réttarríkisins og lýðræði í reynd.“ Hæstiréttur tók undir þessa skoðun, þegar hann hafnaði kröfu málsvara Baugs um vanhæfi mitt vegna orða hér á síðunni og í tímaritinu Þjóðmálum.