Þriðjudagur, 07. 02. 06.
Tók þátt í umræðum á borgarstjórnarfundi um tillögu varðandi þá ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar að láta Laxárvirkjun renna inn í orkusölufyrirtæki norður í landi. Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, stendur að flutningi þessarar tillögu og skín í gegnum málflutning hans, að hann telur Landsvirkjun vera að stinga undan orkuveitunni. Ekkert liggur hins vegar fyrir um, að Reykjavíkurborg sem 45% eigandi Landsvirkjunar, skaðist af þessum gjörningi. Þegar betur er að gáð er tillagan hrein sýndarmennska, því að með henni verður lögheimildum stjórnar Landsvirkjum ekki hnekkt.
R-listinn sálugi hleypur frá viðræðum um sölu á hlut sínum í Landsvirkjun til ríkisins, þar sem engin samstaða er innan listans um þetta mál frekar en annað. Síðan telja fulltrúar listans sér sæma að ráðast á stjórn Landsvirkjunar á fundum borgarstjórnar og krefjast þess, að hún beri ákvarðanir undir borgarstjórn, svo að þar sé unnt að gæta hagsmuna Orkuveitu Reykjavíkur!
Allt þetta kjörtímabil borgarstjórnar hefur Alfreð Þorsteinsson nýtt minnsta tilefni til að hnýta í Landsvirkjun, svo að ekki sé talað um Landssímann, sem hann hótaði meira að segja að kaupa, án þess að hafa til þess nokkurt umboð frá stjórn Orkuveitu Reykjavíkur eða borgarstjórn. Hæst hefur Alfreð talað í þessa veru, þegar athygli hefur beinst að bruðli hans við húsbyggingar eða Línu.net. Samfylkingin og vinstri/grænir hafa hiklaust staðið að þessari óráðsíu með Alfreð - en nú er þetta sama fólk miður sín fyrir hönd Landsvirkjunar vegna ráðstöfunar á Laxárvirkjun og heimtar umræður í borgarstjórn. Ef vakið hefur verið máls á fjáraustri vegna orkuveituhússins eða Línu.net í borgarstjórn, þykir R-listanum tíma sínum illa varið og veitast með reiðiorðum að málshefjendum.
Leiðarahöfundar tveggja blaða skrifa í dag um þá tillögu, sem ég hef hreyft um greiningardeild hjá lögreglunni.
Blaðið birtir leiðara án þess að geta höfundar. Leiðarinn er í dag undir fyrirsögninni: Öryggi og eftirlit. Telur Blaðið hér um „mikla breytingu á skipan lögreglumála á Íslandi“ að ræða, sem krefjist „ítarlegrar umræðu auk þess sem mikilvægt er að fyllri upplýsingar verði veittar um margt sem lýtur að verksviði og starfsháttum nýju lögregludeildarinnar.“
Lesandi leiðara Blaðsins gæti dregið þá ályktun, að ekki hefðu áður verið ákvæði í íslenskum lögum um skyldu lögreglu til að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum. Lögreglan hefur þegar þessa skyldu en verði frumvarp mitt að lögum verður þetta verkefni falið nýrri deild, greiningardeild, sem auk þessara verkefna skal huga að alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkum. Má segja, að aukin áhersla á þá þætti sé nýmæli.
Blaðið veltir fyrir sér, hvaða aðferðir séu til þess fallnar að rannsaka landráð og við hvaða mælikvarða verði stuðst við hættumat. Í erindi, sem ég flutti á fundi rannsóknarlögreglumanna síðastliðið haust ræddi ég sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu en víða um heim er þetta viðfangsefni mikið rætt bæði meðal sérfróðra manna og á almennum vettvangi. Blaðið telur frumvarpið „um margt mjög tímabært“ en það þurfi „umfangsmikla umræðu og upplýsingagjöf.“
Jón Kaldal, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, ritar leiðara um málið í blaðið í dag undir fyrirsögninni: Öryggislögregla ríkisins. Þar segir meðal annars: „Viðbrögðin við þessari tillögu dómsmálaráðherra eru hálf einkennileg. Annars vegar er talað um hana í hálfkæringi, eins og þetta sé eitthvað grín, „íslensk leyniþjónusta ha ha“. eða af æsingi og með skömmum eins og hér eigi að fara að stunda stórfelldar njósnir um andstæðinga ríkisins.“
Jón telur „fyllstu ástæðu til að herða viðbúnað og styrkja innviði lögreglunnar“ með vísan til skipulagðrar alþjóðlegrar glæpastarfsemi og hryðjuverka. Þess vegna sé „óskandi að umræðan komist hratt í hófstilltan og viðeigandi farveg innan sem utan þings.“
Undir lok leiðarans segir Jón: „Ef rétt er að nýtt frumvarp Björns feli í sér vísi að öryggislögreglu er ekkert við það að athuga. Það þarf hins vegar að taka þá umræðu alvarlega, ekki síst þá hlið sem snýr að eftirlitsþættinum með slíkri starfsemi, en núverandi fyrirkomulag felur í sér að dómsmálaráðuneyti hefur þá skyldu.“