Mánudagur, 27. 02. 06.
Í gær ræddum við Egill Helgason um ástandið í Írak í Silfri Egils. Ef ég hefði haft þær tölur, sem ég las um í dag, á hraðbergi hefði ég nefnt þær í þættinum.
Brookings stofnunin í Washington er birtist sérstakan „Írak index“ til að fylgjast með þróun mála í Írak eftir innrásina þar og afstöðu almennings í landinu. Nýjasta skoðanakönnunin, sem er frá 13. febrúar, sýnir, að íraskur almenningur er bjartsýnn á framtíðina, þótt margt gerist til að draga úr honum kjarkinn. Þá er stuðningur við innrásina einnig ótrúlega mikill.
Spurt var: Telur þú, að mál þróist í rétta átt um þessar mundir í Írak? Já, sögðu 64% allra, sem spurðir voru; 76% Kúrda; 84% Sjíta; 6% Súnníta.
Spurt var: Með vísan til allra erfiðleika, sem þú kannt að hafa þolað frá innrás Bandaríkjamanna og Breta, telur þú persónulega, að það hafi verið þess virði að bola Saddam Hussein frá völdum? Já, sögðu 77% allra; 91% Kúrda; 98% Sjíta; 13% Súnníta.
Tæplega 80% Íraka telja innrásina hafa verið þess virði að losna við Saddam - Súnnítar telja sinn hlut greinilega mega vera betri.
Gestur Jónsson, höfuðverjandi Baugs, lætur sér ekki lengur nægja að krefjast þess, nú með skírskotun til álits dansks lögmanns, að ég hagi orðum mínum eins og hann telur nærgætið fyrir skjólstæðing sinn, í Kastljósi í kvöld agnúaðist Gestur einnig út í það, að norskur saksóknari skyldi hafa fengið grein birta í Morgunblaðinu sl. laugardag en frá henni sagði ég í dagbók minni þá.