Föstudagur, 24. 02. 06.
Tók klukkan 16.00 þátt í athöfn við Skógarhlíð til að staðfesta flutning höfuðstöðva Landhelgisgæslu Íslands þangað.
Þegar ég hlustaði á það í Spegli RÚV, að því væri líkt við Watergate-hneyksli í Svíþjóð, að starfsmaður flokks sósíal-demókrata hefði ritað nafnlaus níðbréf um formann hægri flokksins og birt í fjölmiðlum, var mér hugsað til huglausu nafnleysingjanna á íslenskum innherjasíðum, sem ráðast með svívirðingum á nafngreinda menn. Mér er sagt, að á einhverri síðunni hafi nafnleysingjarnir meira að segja kvartað undan því, að þar væru engir málsvarar Sjálfstæðisflokksins - en að sögn virtust innherjarnir sjálfir helst vera stuðningsmenn Samfylkingarinnar eða einstakra forystumanna hennar.
Formaður sænska hægri flokksins vildi ekki sitja undir þessum persónulegu árásum nafnleysingjans og leitaði réttar síns - fyrr en varði kom hið sanna í ljós en Göran Persson, formaður flokks sósíal demókrata og forsætisráðherra, baðst afsökunar án þess að vilja greina frá nafni flokksstarfsmannsins, sem stóð að nafnlausu árásunum. Hér hefur þess ekki orðið vart, að ritstjórar skjóls fyrir nafnleysingja á netinu sýni sama hug og sænski forsætisráðherrann, sem vildi ekki bera ábyrgð á ritsóðanum.
Fór í kvöld í Listasafn Íslands, þar sem verið var að opna sýningar á verkum Gunnlaugs Blöndals og Snorra Arinbjarnar.
Þorsteinn Pálsson hóf ritstjórastörf á Fréttablaðinu í gær og skrifaði sinn fyrsta leiðara í dag um samband Íslands og Bretlands í tilefni af heimsókn Halldórs Ásgrímssonar til Tonys Blairs í Downing stræti 10. Morgunblaðið birti hins vegar viðtal við Steingrím Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins, um að hann hefði heimsótt Margaret Thatcher í Downing stræti árið 1988 og þess vegna væri rangt hjá forsætisráðuneytinu og öðrum, að 30 ár væru liðin frá því, að forsætisráðherra Íslands hefði heimsótt Downing stræti.
Jóhann Hauksson, sem sat fyrir Baugsmiðilinn Fréttablaðið í réttarsal undir Baugsmálinu frá mánudegi til fimmtudags, var gestur Kastljóss en brá því miður engu ljósi á málið. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar, ræddi við Jóhann um fréttir vikunnar, en hún gat ekkert sagt um þetta mál, af því að hún hafði ekki nennt að kynna sér það í fjölmiðlum. Þetta var ekki metnaðarfull umræða í Kastljósi um þetta stórmál vikunnar og stenst raunar enga gagnrýni eða samanburð við efnistök í erlendum fjölmiðlum, ef mál af sambærilegum toga væri til meðferðar fyrir dómstólum þar.
Nærtækt er að bera þetta yfirborðstal saman við þá viðleitni Kastljóss að sanna, að skattalækkanir séu ekki skattalækkanir heldur eitthvað allt annað, og alla þá sérfræðinga, sem kallaðir hafa verið á vettvang til að búa til alls kyns talnaflækjur eða súlurit til að sanna eitthvað, án þess að nokkur botn fáist í málið. Um dómsmál má segja, að dómarar eigi síðasta orðið - í öðrum löndum gera þó fjölmiðlar slíkum málum rækileg skil, ef þau eru af sömu stærðargráðu og Baugsmálið. Morgunblaðið hefur leitast við að segja frá því, sem hefur verið að gerast í réttarsalnum. Ef Kastljósið í kvöld átti að skýra Baugsmálið fyrir áhorfendum þess, misheppnaðist það gjörsamlega.