18.2.2006 23:10

Laugardagur, 18. 02. 06.

Átti fund með fræðimanni um öryggis- og alþjóðamál í London og ræddum við íslensk, alþjóðleg og evrópsk öryggismál og hvernig áherslur hafa breyst bæði í hættumati og við framkvæmd stefnu í öryggismálum.

Á mörgum fundum og ráðstefnum um öryggismál á tímum kalda stríðsins sannfærðist ég um gildi þess að kynnast fræðilegri hlið öryggismálanna. Aðeins með því að líta til hennar er unnt að komast hjá því að vera bundinn af skammtímasjónarmiðum. Fræðimenn hafa ekki frekar en aðrir endilega rétt fyrir sér en þeir bregða ljósi á þróun og stöðu mála, sem auðveldar töku skynsamlegra ákvarðana um framtíðina.