1.12.2013 22:55

Sunnudagur 01. 12. 13

Atburðirnir í Kiev þar sem efnt er til mótmæla dag eftir dag til að árétta vilja aðgerðarsinna til að stjórnvöld halli sér að Evrópusambandinu frekar en Rússum eru hinir dramatískustu sem orðið hafa í evrópskum stjórnmálum undanfarin ár. Í grein í The New York Times sem sagt var frá á Evrópuvaktinni er átökunum lýst sem glímu milli kynslóða með ólíkt gildismat.

Þegar þetta er skrifað er óvíst hvernig átökin enda. Í dag höfðu mótmælendur bann stjórnvalda við að þeir kæmu saman á götum Kiev að engu. Þeir hröktu lögreglumenn á brott af Sjálfstæðistorgi borgarinnar og beittu jarðýtu gegn járngrindum lögreglu skammt frá forsetaskrifstofunni. Mótmælendur boða byltingu í ræðum sínum og á spjöldum sem þeir bera.

Í dag lýsti Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, vandlætingu á banninu við fundum og mótmælum í Kiev. Í vikunni munu utanríkisráðherra ríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu koma saman í Kiev en markmið stofnunarinnar er meðal annars að standa vörð um mannréttindi í aðildarríkjunum.