Þriðjudagur 17. 12. 13
Páll Magnússon útvarpsstjóri sagði af sér í dag eftir að stjórn ríkisútvarpsins hafði tilkynnt honum að hún ætlaði að auglýsa embættið þegar fimm ára ráðningartími hans hefði runnið út á næsta ári. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem embættismaður bregst við á þennan hátt þegar þeir sem hafa ráðningarvaldið ákveða að nýta sér lögbundinn rétt til að auglýsa embætti laust til umsóknar.
Að sjálfsögðu getur viðkomandi embættismaður sótt um starfið. Þetta gerði til dæmis Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri þegar embætti hennar var auglýst laust til umsóknar. Þjóðleikhúsráði bar að að gera það lögum samkvæmt. Tinna var endurráðin. Stjórn ríkisútvarpsins bar ekki að auglýsa. Ákvörðunin er ekki óeðlileg í ljósi ástandsins á ríkisútvarpinu. Páll Magnússon hefur metið stöðu sína á þann veg að hann yrði ekki endurráðinn eftir auglýsingu.