7.12.2013 22:00

Laugardagur 07. 12. 13

Skýringarnar á ástandinu á ríkisútvarpinu eru skringilegar. Nú hafa einhverjir komist að þeirri niðurstöðu að vandinn hafi hafist með breytingunni í opinbert hlutafélag. Aðrir telja nefskattinn upphaf alls ills. Síðan má ekki gleyma þeim sem segja að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sé allt að kenna í þessu efni.

Allt eru þetta tilraunir til að forðast kjarna málsins. Hann er sá að teknar hafa verið ákvarðanir innan dyra í ríkisútvarpinu sem vega að rótum þess og þar með því sjálfu. Rás 1 er rótin og af henni hefur meginstofninn risið. Með því að vega að starfsemi rásar 1 er vegið að tilvist ríkisútvarpsins. Að segja þetta stafa af ohf-væðingunni eða nefskattinum er út í bláinn og einnig hitt að ríkisstjórnin hafi átt hlut að máli.

Ákvörðunin er útvarpsstjórans og nánustu samstarfsmanna hans. Hverjum gat dottið í hug að þessi hópur manna mundi valda því uppnámi sem nú hefur orðið með vanhugsuðum úrræðum sínum? Stjórn ríkisútvarpsins verður tafarlaust að láta sig málið varða en ekki setja það í nefnd.

Sætti ríkisstjórn og alþingi sig ekki við ákvarðanir útvarpsstjóra og vilji varðstöðu um meginstofn og hlutverk ríkisútvarpsins blasir við eitt ráð: að setja ríkisútvarpinu ný lög sem þrengja valdsvið útvarpsstjóra og marka fyrirtækinu hlutverk sem er í samræmi við það sem ríkisstjórn og alþingi vilja.

Grunninn fyrir rekstri rásar 2 þarf að rökstyðja á ný og setja þeirri rás skýr mörk þegar vegið hefur verið að rás 1. Það eru engin rök fyrir rás 2 að ríkisútvörp í öðrum löndum haldi úti slíkum stöðvum. Þeir sem láta sér nægja að benda til annarra landa þegar rás 2 ber á góma hafa ekkert efnislegt til mála að leggja.