25.11.2013 22:20

Mánudagur 25. 11. 13

Þorbjörn Rúnarsson hefur ritað út fræga samtalið við Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor í Spegli ríkisútvarpsins föstudaginn 22. nóvember í tilefni að því að 50 ár voru liðin frá morðinu á John F. Kennedy. Undir lok samtalsins beindi Gunnar Gunnarsson fréttamaður umræðunum inn á brautir sem leiddu til samanburðar á stöðu mála í Bandaríkjunum og Evrópu og hafði Gunnar á orði að líka væri „gríðarlega mikil fátækt í Bandaríkjunum“. Þá sagði Hannes Hólmsteinn:

„Ég held reyndar að fátæktin sé viðráðanlegri þar [í Bandaríkjunum], því það eru fleiri leiðir opnar til þess að komast út úr fátækt og við sjáum það til dæmis ef við lítum á Evrópu að þar er svo mikið atvinnuleysi hjá ungu fólki. Það er allt upp í helmingurinn af ungu fólki atvinnulaust í sumum Evrópulöndunum núna og það þýðir að það hefur ekki sömu tækifærin og í Bandaríkjunum til að brjótast út úr fátækt og í bjargálnir og það sem að ég held að bæði Evrópa og Bandaríkin þurfi að gera í framtíðinni er að keppa í lífsbaráttunni við þessi nýju ríki [Kína og Indland]. Og til þess að gera það held ég að þau þurfi að gera það sem er gamalkunnugt ráð, sem er að virkja kapítalismann og sköpunarmátt hans og lækka skatta. En það eru meiri líkur á að Bandaríkjamenn geri það heldur en Evrópubúar. Ég held að þeir séu dáldið að festast í einhverjum mótum sem getur orðið til þess að Evrópa breytist í eitthvað sambland úr elliheimili og byggðasafni.“

Hannes Hólmsteinn minnist þarna á að „allt undir helmingurinn af ungu fólki“ sé atvinnulaust í Evrópu. Þetta er ekki hárrétt. Í Grikklandi og á Spáni hefur atvinnuleysi ungs fólks farið yfir 60%. Í orðum hans kemur hins vegar fram mat sem reist er á raunsæi.