16.12.2013 23:15

Mánudagur 16. 12. 13

Á vefsíðunni dv.is hefur dag eftir dag mátt lesa frásagnir af afleiðingum þess að fjölmiðlar fengu upplýsingar um raunverulegar aðstæður hælisleitanda hér á landi. Í stað þess að ræða efni málsins og bera það saman sem maðurinn sagði og það sem í raun var á döfinni snúast skrifin á dv.is um það hvaðan upplýsingarnar bárust.

Þegar fjölmiðlar grípa til skrifa af þessu tagi minnir það mig á umræður fyrir mig mörgum áratugum þegar sagt var frá því að nokkrir íslenskir þingmenn hefðu hitt Norðmanninn Arne Treholt á fundi í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fyrir um 40 árum og rætt við hann um brottför varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli. Þótti þetta frásagnarvert eftir að Treholt var dæmdur fyrir njósnir í þágu Sovétríkjanna. Eftir að Morgunblaðið sagði frá þessum fundi hófust miklar umræður um hvaðan blaðið hefði fengið upplýsingarnar og var ætlunin greinilega að draga athygli frá efni málsins.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, vakti máls á því á alþingi í dag að innanríkisráðuneytið hefði  „verið viðfangsefni fjölmiðla að undanförnu vegna upplýsinga sem virðast hafa lekið úr ráðuneytinu, eða einhverri af stofnunum þess, um málefni tiltekins hælisleitanda“.  Spurði hún Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra hvað hún hefði „gert til að komast til botns í því hvernig gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitendur rötuðu í fjölmiðla […] „mjög óheppilegt [sé] að uppi sé óvissa um hvernig þessi gögn láku út“.

Leki er vandi í stjórnkerfum allra landa en hins vegar er mjög misjafnt hvernig um hann er rætt á opinberum vettvangi.  Formaður VG taldi í þessu tilviki um að ræða fordæmi sem skipti „verulega miklu máli“.  Hanna Birna sagði að velta ætti fyrir sé „hvort læsa þurfi gögnum frekar, hvort takmarka þurfi enn frekar aðgang að þessum gögnum, bæði þá innan ráðuneytanna og hugsanlega innan undirstofnana þeirra. […]Það er búið að skoða málið innan innanríkisráðuneytisins. Ráðuneytisstjórinn hefur farið með það. Engin ástæða er til að ætla að nokkur formleg gögn hafi farið frá ráðuneytinu þannig að ég get ekki útskýrt nákvæmlega hvernig þetta gerðist, þ.e. ef það hefur gerst.“

Leki er sjaldan upplýstur, hann skapar stjórnmálamönnum vanda en almennt er fjölmiðlamönnum ekki kappsmál að það sé gert, þeir telja sér almennt til tekna að geta birt efni sem lekið er til þeirra. Þetta á greinilega ekki við um blaðamenn á dv.is. Hvað veldur?