3.12.2013 20:10

Þriðjudagur 03. 12. 13

Í dag las ég fjölda frétta frá mörgum löndum um viðbrögð við PISA 2012 könnuninni. Í öllum nágrannalöndum okkar hafa menn ekki síður áhyggjur af niðurstöðunni en við. Má lesa um þetta á Evrópuvaktinni. Nú standa nemendur í Liechtenstein og Sviss sig best meðal Evrópuþjóða og Þjóðverjar eru sáttir við framfarir innan skólakerfisins hjá sér.

Þau rök standast ekki hér frekar en annars staðar á Norðurlöndunum að fjárskortur ráði því að nemendur nái ekki betri árangri. Spurning er hvort það sé sanngjarnt að láta nemendur taka þátt í prófum sem þessum  í skólakerfi þar sem almennt er látið eins og próf eða keppni um árangur í skólastarfi skipti ekki máli.

Nýlega ræddi ég við Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur borgarfulltrúa í þætti mínum á ÍNN og varð undrandi á lýsingum hennar á hvernig farið væri með niðurstöður í samræmdum prófum til að hindra að menn gætu borið saman árangur í skólum.

Á sínum  tíma beitti ég mér fyrir að upplýsingar um einkunnir  lægju fyrir á opinberum vettvangi. Mér er í raun óskiljanlegt hvers vegna fallið hefur verið frá birtingu þeirra og ekki sé lögð áhersla á að þjálfa nemendur í að taka próf og efla skilning þeirra á að árangur skiptir máli. Þeir sem eru á móti slíkri upplýsingamiðlun hljóta einnig að vera andstæðingar þess að niðurstöður í PISA-könnuninni séu birtar – eða hvað?

Hér er tekið fram að gleðilegt sé að nemendum líð vel í íslenskum skólum. Vissulega er það ánægjulegt. Er það hins vegar viðundandi ef námsárangurinn minnkar og þar með tækifærin sem skólinn skapar?