Fimmtudagur 05. 12. 13
Tilkynnt var í kvöld að Nelson Mandela væri látinn 95 ára. Hann hefur um árabil verið meira en sameiningartákn fyrir þjóð sína í Suður-Afríku, Hann var einn fárra manna i heiminum sem höfðaði til alls mannkyns. Hann sat 27 ár í fangelsi og lengst á Robben-eyju undan ströndinni við Höfðaborg. Eyjan er nú á heimsminjaskrá UNESCO og þangað streymir fólk í pílagrímsferðir. Honum var sleppt úr fangavistinni 1990 og hann leiddi African National Congress, hreyfingu blökkumanna sem hafði verið bönnuð, til sigurs í kosningunum 1994, hinum fyrstu lýðræðislegu kosningum í sögu Suður-Afríku.
Ég var meðal þeirra sem tóku þátt í kosningaeftirliti í þessum kosningum í S-Afríku og fylgdist með því í úthverfum Jóhannesarborgar og Soweto þegar fólk gekk til kjörklefans. Var það ógleymanleg reynsla og minningin um fólkið sem beið tímunum saman eftir að röðin kæmi að því að fá atkvæðaseðilinn er enn lifandi í huga mínum. Skoskur þingmaður sem var í hópi eftirlitsmannanna sagði að þyrfti fólk í sínu kjördæmi að bíða í meira en 3 mínútur eftir að komast í kjörklefann sneri það á brott, hér stæðu kjósendur í átta tíma til að njóta hins lýðræðislega réttar.