30.11.2013 22:10

Laugardagur 30. 11. 13

Stjórnarandstaðan telur verst við tillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun skulda heimilanna að óvíst sé um fjármögnun þeirra. Í þessu felst ekki gagnrýni á efni tillagnanna heldur aðferðina við að fjármagna þær. Það sýnir að stjórnarandstaðan viðurkennir að tillögurnar skili þeim árangri sem að er stefnt, að koma til móts við skuldara.

Í fjárlögum ársins 2013 sem núverandi stjórnarandstaða samdi og samþykkti var áætlað að 3,7 milljarða kr. halli yrði á rekstri ríkissjóðs á árinu. Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2013 sem lagt var fram í vikunni er nú gert ráð fyrir að heildarhalli ársins 2013 verði neikvæður um 25,5 milljarða kr. og þar með 21,8 milljörðum kr. lakari en gert var ráð fyrir í gildandi fjárlögum. Breytingarnar á afkomu ríkissjóðs frá áætlun fjárlaga stafa aðallega af því að tekjur ríkissjóðs eru umtalsvert lægri en áætlað var í fjárlögum vegna minni hagvaxtar en vænst var.

Þessar tölur eru nýjasta sönnun um hve glögg núverandi stjórnarandstaða er á fjárlagatölur, hagvöxt og framvindu mála. Nú þegar forystumenn stjórnarandstöðunnar eru á nálum vegna afkomu ríkissjóðs í tilefni aðgerða í þágu skuldugra heimila er að sjálfsögðu ástæða til að leggja vel við hlustir.