15.12.2013 22:30

Sunnudagur 15. 12. 13

Það er einkennilegt að sjá hvert umræðurnar um IPA-styrkina leiða menn. Þetta eru styrkir sem ESB veitir til að auðvelda umsóknarríkjum að laga sig að kröfum ESB. Að halda einhverju öðru fram er fráleit blekking. Össur Skarphéðinsson mátti beita valdi utanríkisráðherra og einstökum pólitískum áhrifum til ná frumvarpi til laga um styrkina í gegnum alþingi ef marka má eigin frásögn hans. Hann átti það að lokum Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þingforseta að þakka að unnt var að lauma frumvarpi hans í gegn á úrslitastundu. Vinstri-grænir kusu að sofa á verðinum þrátt fyrir opinberar heitstrengingar um andstöðu við IPA-styrkina.

Eftir að lögin komu til sögunnar var hafist handa við að framkvæma þau og var það gert með því fororði Össurar og félaga að styrkveitingar ættu ekkert skylt við aðlögun, það yrðu að minnsta kosti örugglega ekki vandræði þótt aðildarumsóknin klúðraðist.

Nokkrir aðilar nýttu sér heimildina sem lögin veittu, sóttu um og fengu IPA-styrki. Utanríkisráðherra nýrrar ríkisstjórnar sem er andstæð aðild að ESB varð þrumu lostinn þegar ESB tilkynnti að ekki væri ætlunin að standa við það sem gert var á grundvelli laga Össurar og nú hefur Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, gefið til kynna að látið verði reyna á lögmæti uppsagnar ESB.

Eftir að Birgir lýsti áformum um að láta reyna á skyldu ESB til að standa við gerða samninga áttu ESB-aðildarsinnar á borð við Stefán Ólafsson prófessor og G. Pétur Matthíasson varla nógu sterk orð til að lýsa hneykslan sinni eða reiði. Hvernig nokkrum dytti í hug að móðga ESB á þennan hátt? Hafa þeir ekki til þessa mótmælt að um aðlögun að ESB hafi veriðb að ræða? Afstaða þeirra nú sýnir enn einu sinni að þeir standa alltaf með ESB.