Fimmtudagur 12. 01. 13
Um nokkurt skeið hefur verið rætt um að stjórnvöld í Ungverjalandi hafi staðið að aðför að málfrelsi í landinu. Nú hefur Aldo Keel, svissneskur rithöfundur og þýðandi, sem bjó í tvö ár í Reykjavík skrifað grein í hið virta svissneska blað Neue Züricher Zeitung undir fyrirsögninni: Ungarn in Island? – Ungverjaland á Íslandi? – sem hefst á orðunum: „Á Íslandi er fjandinn laus.“ Keel vitnar í orð Vigdísar Hauksdóttur þingmanns og lætur þess getið að hún hafi sem formaður fjárlaganefndar alþingis gagnrýnt fréttastofu ríkisútvarpsins fyrir vinstrimennsku og undirlægjuhátt gagnvart ESB og hún hafi hótað niðurskurði eins og fram hafi komið á vefsíðunni Eyjunni í ágúst. Nú óttist rithöfundar „ungverskt ástand“.
Vissulega er ástæða til að hafa áhyggjur af stööunni á ríkisútvarpinu og stórundarlegum ákvörðunum útvarpsstjóra. Að vega að sjálfum rótunum lofar ekki góðu um framhaldið og framtíðina. Miðað við þung orð sem fallið hafa um ástandið í Ungverjalandi og frelsi fjölmiðla þar er augljóst að lýsingar í útlöndum á ástandinu á ríkisútvarpinu gefa ekki rétta mynd af því sem hefur gerst á Íslandi. Hverjum er raun í hag að draga upp þessa mynd? Hvað halda þeir sem það gera að ávinnist með því?