Fimmtudagur 28. 11. 13
Þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra töldu stjórnendur ríkisútvarpsins lífspursmál fyrir stofnunina að öll starfsemi hennar flyttist í hið mikla útvarpshús við Efstaleiti sem er þó minna en upphaflega var ætlað. Nú sagði Páll Magnússon útvarpsstjóri í Kastljósi kvöldsins að hann vildi selja útvarpshúsið.
Eyjólfur Konráð Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var á sínum tíma eindreginn andstæðingur þess að svo stórt hús yrði reist yfir ríkisútvarpið og vildi að því yrði breytt í kartöflugeymslu.
Fylgi útvarpsstjóri hugmynd sinni eftir er eðlilegt að velta fyrir hvernig eigi að nýta húsið við Efstaleiti. Miðað við legu útvarpshússins á höfuðborgarsvæðinu og gerð hússins með miklum geymslum fyrir tæki og tól auk góðs rýmis umhverfis það mundi húsið til dæmis henta vel sem höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þar færi einnig vel um samhæfingarstjórn almannavarna, fjarskiptadeild lögreglu, neyðarlínuna auk vakstöðvar siglinga.
Miðað við áform Reykjavíkurborgar um breytingar á Hlemmi í þágu skapandi greina er ekki vafi um áhuga fjárfesta á að nýta lögreglustöðina við Hverfisgötu í þágu þjónustu af einhverju tagi eða reisa nýtt hús á reitnum – þarna er einnig kjörinn staður fyrir Listaháskóla Íslands sem vill vera í hringiðu miðborgarinnar.