Föstudagur 29. 11. 13
Fréttir af nýrri könnun á vegum MMR sem birt var í dag sýnir að Björt framtíð er næst stærsti flokkurinn á eftir Sjálfstæðisflokknum. Björt framtíð mælist með 15,2% en Sjálfstæðisflokkurinn með rúmlega 10 stigum meira fylgi. Fylgi Bjartrar framtíðar er til marks um vinsældir pólitískrar firringar – Annars vegar er þess krafist af stjórnarflokkunum að þeir standi við kosningaloforð sín um raunveruleg viðfangsefni varðandi hag lands og þjóðar hins vegar leggur Björt framtíð flokkurinn sem mælist stærstur í stjórnarandstöðu megináherslu á að leggja niður mannanafnanefnd og færa til frídaga!
Þegar Guðmundur Steingrímsson, leiðtogi Bjartrar framtíðar, tekur til máls á alþingi talar hann í hæðnislegum spurnartón án þess að leggja fram nokkuð sem getur talist framlag til efnislegrar lausnar á málum. Draga má í efa að nokkurs staðar sé unnt að finna sambærilegan stjórnmálaflokk í nágrannalöndunum sem rýkur upp í vinsældum, þeir gera það almennt með skýra stefnu, einkum með því að lýsa efasemdum um ágæti Evrópusambandsins.
Björt framtíð talar í hálfkveðnum vísum um ESB-málið, segist vilja leiða viðræður til lykta án þess að setja fram samningsmarkmið. Það er sama hvar borið er niður, hvarvetna leitast flokkurinn við að vera á gráu svæði og hann laðar greinilega stjórnarandstæðinga með sér þangað. Hve lengi honum helst á þessu fylgi er óljóst. Spurning er hve lengi samfylkingarfólk ætlar að líða Bjartri framtíð að höggva í sínar raðir.