25.12.2013 23:55

Miðvikudagur 25. 12. 13 - Jóladagur

Á íkonum sem sýna heilagan Jósef stendur hann gjarnan með dreng við barm sér og hann stingur miða með bænarefni í brjóstvasa Jósefs. Ég á slíkan íkon frá Karmelnunnum í Hafnarfirði, kæran dýrgrip. Um íkona segir á wikipediu:

„Hver íkoni er meira og minna nákvæm eftirmynd þekktrar fyrirmyndar. Þessi hefð helgast af því myndirnar eru taldar búa yfir kynngi og kraftaverkamætti. Íkonar eru mikilvægur þáttur í öllum guðshúsum réttrúarkirkna en þeir eru einnig algengir á heimilum. Mörg kraftaverk eru rakin til áhrifamáttar íkona og sumir þeirra hafa orðið víðfrægir.

Heitið íkon kemur af gríska nafnorðinu εἰκών „eikon“ sem þýðir mynd og sagnorðinu „eikenai“, að líkjast. Íkon er ekki mynd „af“ einhverju heldur er raunveruleiki, andlegur gluggi. Sá sem horfir á það er talinn vera viðstaddur atburðina. Íkoninn á því rétt á sömu virðingu og er heiðraður á sama hátt og persónurnar sem eru á honum.“

Öllum verður hugsað hlýlega til Jósefs þegar þeir lesa þessa frásögn í Matteusarguðspjalli:

„Fæðing Jesú Krists varð á þennan hátt: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman reyndist hún þunguð af heilögum anda.  Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni,  vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey.  Hann hafði ráðið þetta með sér en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: "Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda.  Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans."

Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða:  "Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel," það þýðir: Guð með oss.

Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín.  Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.“