20.12.2013 23:40

Föstudagur 20. 12. 13

Stjórnendur þýska vikuritsins Der Spiegel hafa ákveðið að skera niður efni á ensku vefsíðunni Spiegel Online. Hún gefur ekki nógu mikið í aðra hönd. Vefsíðan hefur notið vaxandi vinsælda í Bandaríkjunum eftir að fréttir um NSA-njósnir í Þýskalandi tóku að berast. Næstum hálf milljón manna í Bandaríkjunum heimsóttu síðuna í júlí. Kostnaður Der Spiegel er hins vegar meiri en tekjurnar og þess vegna hefur verið tekin ákvörðun um að rifa seglin.

Samhliða því sem umsvifin á Spiegel Online minnka verður tekið til við að innheimta gjald af lesendum fyrir aðgang að ýmsum greinum á síðunni. Vakin er athygli á að Der Spiegel sé ekki eina þýska blaðið sem hafi neyðst til að loka enskum vefsíðum sínum. Hið sama hafi Die Welt og Bild orðið að gera.

Það er greinilega þessum þýsku stórblöðum ofvaxið að halda úti vefsíðum á öðru tungumáli en sínu eigin. Þetta hefur ekki aðeins gerst í Þýskalandi heldur einnig í öðrum löndum. Í Finnlandi hætti til dæmis Helsingin Sanomat að halda úti ensku vefsíðunni sinni.

Sérstakar síður sem höfða til fólks af fleiri en einu þjóðerni snúast venjulega um eitthvert ákveðið málefni og lesendur treysta því að þangað geti þeir leitað til að afla sér upplýsinga um þetta málefni án tillits til upprunalands fréttanna.