27.11.2013 21:15

Miðvikudagur 27. 11. 13

Það væri verðugt að birta Reykvíkingum allt sem Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur sagt um það sem gerast á í Vatnsmýrinni. Nú segir hann „að hægt sé að gera Vatnsmýrina að okkar eigin Danmörku, sem sé flöt með örar samgöngur og aðstöðu fyrir góða umferð hjólafólks og þeirra sem gangandi eru. Sagði hann jafnvel möguleika á lestum þar þegar litið er til lengri tíma,“ segir á mbl.is í dag og er vitnað til þess sem kom fram á fundi um framtíð og tækifæri í Vatnsmýrinni á Hótel Natura.

Þá talaði Dagur B. einnig um „íbúðir meðfram Öskjuhlíðinni, norður af Háskólanum í Reykjavík“. Hvað á hann við? Svæðið þar sem skóli á vegum Hjallastefnunar hefur fengið aðsetur? Eða þar sem Flugbjörgunarsveitin er? Á að setja virkisvegg við alla vesturhlíð Öskjuhlíðar? Einu sinni sagði Dagur B. að lyfjafyrirtæki risi á þessum stað.

Norræna húsið er í Vatnsmýrinni þar flutti Camilla Gunell, landsstjóri á Álandseyjum, fróðlegt hádegiserindi um Álandseyjar sem herlaust svæði á nýjum tímum í öryggismálum. Kröfunni um herleysi er fylgt svo stíft að sérstakt leyfi varð að gefa sænska hernum til að lenda þyrlum á Álandseyjum við björgunarstörf vegna slyssins mikla þegar ferjan Estonia sökk og meira en 1.800 manns fórust.

Alyson Bailes, aðjúnkt í stjórnmálafræðideild HÍ, flutti einnig ræðu á fundinum og velti einmitt fyrir sér samskiptum borgaralegra yfirvalda og hernaðarlegra við gæslu öryggis í samtímanum. Færi eitthvað úr skorðum gerðist það inni í samfélögum og það kynni að auka á hættu fólks væri ekki heimilt að beita öllum ráðum til viðbragða meðal annars hervaldi – herlaus svæði gætu orðið hættulegri en þau þar sem kalla mætti á hermenn til hjálpar.

Síðdegis var útgáfuhóf vegna bókarinnar Karólínu sem Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur hefur skrifað um Karólínu Lárusdóttur og myndlist hennar – glæsileg bók og verðugur minnisvarði um list Karólínu – Forlagið er útgefandi  og flutti Jóhann Valdimarsson forstjóri eftirminnilega ræðu um sögu bókarinnar og áhuga sinn á útgáfu hennar.