4.12.2013 21:40

Miðvikudagur 04. 12. 13

Í kvöld var birt samtal mitt við Svein Einarsson, leikstjóra og rithöfund, um nýja bók hans Kamban á ÍNN sem má sjá næst klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Það var tímabært að flytja Guðmund Kamban að nýju heim til Íslands á þann glæsilega hátt sem Sveinn gerir. Kom mér á óvart að bókin skyldi ekki tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Í Morgunblaðinu  í dag segir Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari á árunum 2004  til 2012, um dóm hæstaréttar í tölvupóstmáli Jónínu Benediktsdóttur frá árinu 2005:

„Ég efast um að það mál verði talið fordæmisgefandi. Einfaldlega vegna þess að úrlausnin í því var mjög röng. Þar var sagt að nota mætti stolna tölvupósta á þeirri forsendu að málið ætti erindi við almenning. Það er mjög undarlegt í ljósi þess að tölvupóstar eru einkagögn sem enginn á að nota. Mér er nær að halda að þessi dómur hæstaréttar hafi verið kveðinn upp við eitthvert hugarástand í réttinum sem átti ekki neitt skylt við lögfræði og þess vegna er ekki mikil hætta á því að þessi dómur verði fordæmi í þessum Vodafone-málum.“

Þetta er harður dómur hjá fyrrverandi hæstaréttardómara um viðhorf á sínum gamla vinnustað, „eitthvert hugarástand“ en ekki lögin eða fræðileg túlkun á þeim ráða niðurstöðu.