31.12.2013 15:30

Þriðjudagur 31. 12. 13 - gamlársdagur

Ég þakka samfylgdina á árinu 2013!

Á árinu hef ég skrifað mun færri pistla hér á síðuna en undanfarin ár. Ástæðuna má rekja til þess hve mikið ég skrifa á vefsíðuna Evrópuvaktina sem við Styrmir Gunnarsson höfum haldið úti síðan í apríl 2010.

Tilgangur okkar var að leggja efni af mörkum til umræðunnar um aðild Íslands að ESB með því að birta daglega og raunar oft á dag fréttir sem tengjast ESB eða þróun mála sem hafa áhrif á ESB. Þetta hefur gengið eftir auk þess sem við skrifum leiðara á vefsíðuna og smágreinar.

Þáttaskil urðu í ESB-umræðunum á árinu 2013 þegar Samfylkingin, ESB-flokkurinn, galt afhroð í þingkosningunum 27. apríl. Við völdum tók ríkisstjórn flokka, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem hvorugur vill aðild að ESB. Fjarað hefur undan umræðum um ESB-málið eins og best sést af því að aðeins fulltrúi eins flokks, Bjartrar framtíðar, minnist á það í áramótagrein og heldur þar fram úreltri stefnu. Það verður ekki haldið áfram viðræðum við ESB án þess að þjóðin samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Málstaður Evrópuvaktarinnar sigraði á árinu. Hve lengi sú síða lifir fram á næsta ár kemur í ljós.