26.11.2013 21:55

Þriðjudagur 26. 11. 13

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður flutti í hádeginu erindi í tilefni af 150 ára afmæli Þjóðminjasafnsins, stiklaði á stóru í sögu þess, lýsti atburðum á afmælisárinu og greindi frá framtíðarhugmyndum sínum – þar bar hæst væntanleg sýning í Þjóðmenningarhúsinu. Verður spennandi sjá hvernig tekst að mynda þar sýningu á efni úr mismunandi söfnum – Þjóðmenningarhúsið verður Safnahúsið að nýju.

Nú hefur Skoski þjóðernisflokkurinn kynnt stefnuskrá sína á tæpum 700 blaðsíðum í hvítbók sem ætlað er að sanna fyrir Skotum að þeim sé fyrir bestu að greiða atkvæði með sjálfstæði lands síns í þjóðaratkvæðagreiðslu 18. september 2014. Flokkurinn setur fram samningsmarkmið með því að kynna hollustu við drottninguna, sterlingspundið, aðild að NATO og að ESB. Þá er 15.000 manna skoskur herafli kynntur til sögunnar.

Fróðlegt er að bera þessi vinnubrögð saman við aðferðina sem Samfylkingin og VG beittu við hina misheppnuðu tilraun sína til að koma Íslandi inn í Evrópusambandið án þess að gefa sér og því síður þjóðinni allri tækifæri til að segja álit sitt á þessu afsali á fullveldi hennar.

Talsmenn sjálfstæðis Skotlands ætluðu að mæla með aðild að evru-svæðinu en vegna vandræðanna þar hafa þeir horfið frá að leggja það fyrir skoska kjósendur. Áform þeirra um að halda pundinu verða greinilega notuð af ráðamönnum í London til að veikja trú Skota á nauðsyn þess að stíga skrefið til sjálfstæðis.