Föstudagur 13. 12. 13
Viðtölin sem birtust á ÍNN miðvikudaginn 11. desember við Óskar Jóhannsson, fyrrverandi kaupmann, um bók hans Bernskudaga, og Aðalstein Ingólfsson listfræðing um bók hans Karólínu eru komin á netið og má sjá þau hér.
Í dag skoðaði ég Cluny-safnið hér í París sem er miðaldasafn í V. hverfi og hefur að geyma margar forvitnilegar minjar auk þess sem þar má skoða leifar af rómversku baðhúsi. Meðal sýningargripa er náhvalstönn sem minnir á þá staðreynd að miðaldamenn töldu þær dýrgripi og jafnvel horn af einhyrningi.
Þá fór ég í Pantheon - heiðursgrafreit Frakka. Þessi gamla kirkja hefur nú verið gerð upp að innan og er einstaklega glæsileg.