18.12.2013 21:30

Miðvikudagur 18. 12. 13

Í dag ræddi ég á ÍNN við Árna Daníel Júlíusson, sagnfræðing og annan höfunda Landbúnaðarsögu Íslands, sem Skrudda gefur út í fjórum bindum og er tæplega 1.500 blaðsíður. Þátturinn er næst sýndur klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þegar ég blaðaði í þessum bókum rakst ég á margt forvitnilegt. Landbúnaðarsagan er Íslandssagan fram á 20. öldina og af henni lærum við margt sem auðveldar okkur að skilja samtímann.

Í kvöld var síðasti þáttur í þriðju lotu Homeland sjónvarpsþáttaraðarinnar sýndur í DR1. Þættirnir eru bandarísk útgáfa á ísraelskri þáttaröð og snúast um efni sem kann að vera gerast á þessari stundu þegar átök og öryggisgæsla hafa tekið á sig nýja mynd.

Þingfréttir eru horfnar úr öðrum fjölmiðlum en ríkisútvarpinu. Þar eru þær í mjög föstum skorðum og meira er oft fjallað um umgjörð umræðna á þingi en efni þeirra, hvort þingmenn tali oft eða lengi frekar en það sem þeir segja. Þetta einkennir einnig nálgun stjórnenda Kastljóss. Þingmenn eru gjarnan kynntir til sögunnar með þeim fyrirvara að eitthvað bogið sé við hvernig þeir halda á málum eða ræða þau. Þessi afstaða fréttastofu útvarpsins er ekki til þess fallin að vekja áhuga á því sem í raun gerist á alþingi. Ég renni yfir lista með nýbirtum ræðum á vef alþingis og staldra við þau mál sem vekja mér áhuga.

Þjónusta alþingis á vef sínum er mikil og góð. Sé ekki unnt að lesa ræður má hlusta á þær eða heyra þær fluttar.