27.12.2013 20:41

Föstudagur 27. 12. 13

Hér á dagbókarsíðunni vitnaði ég á jóladag í Matteusarguðspjall þar sem sagt er frá viðbrögðum Jósefs þegar hann áttaði sig á að María væri þunguð. Séra Gunnar Jóhannesson skýrir þetta guðspjall í grein í Morgunblaðinu í dag og segir:

„Þegar Jósef komst að því að unnusta hans væri barnshafandi ákvað hann að skilja við hana. Ástæðan var sú að hann vissi jafnvel og nútímafæðingarlæknar hvernig börn eru tilkomin. Hann vissi að samkvæmt hefðbundinni framvindu náttúrunnar eignast konur ekki börn án þess að karlmaður komi þar nærri. Slík fæðing væri með öðrum orðum óhugsandi nema hin reglubundna framvinda náttúrunnar hefði verið sett til hliðar eða eitthvað lagt við hana af einhverju utan og yfir náttúrunni. Þegar Jósef viðurkenndi fyrir sjálfum sér að ástand Maríu var ekki tilkomið vegna ótrúmennsku hennar heldur vegna kraftaverks þá viðurkenndi hann að kraftaverkið var eitthvað sem andstætt var reglu náttúrunnar – og þar af leiðandi vitnisburður um yfirnáttúrlegan mátt utan hennar.

Ekkert getur verið óvenjulegt fyrr en þú hefur uppgötvað og komið auga á það sem er venjulegt. Trú á kraftaverk veltur því ekki á vanþekkingu á lögmálum náttúrunnar. Þvert á móti er trú á kraftaverk einungis möguleg í krafti þekkingar okkar á lögmálum náttúrunnar. Forsendur fyrir trú eða vantrú á kraftaverkum eru þær sömu í dag og þær voru fyrir tvö þúsund árum. Ef Jósef hefði ekki átt þá trú sem gerði honum kleift að treysta á Guð hefði hann getað afneitað yfirnáttúrlegum uppruna Jesú með eins hægu móti og hver annar í dag. Með sama hætti getur sérhver nútímamaður sem trúir á Guð gengist við kraftaverki með eins hægu móti og Jósef. […]

Jólin eru ekki aðeins tími til að trúa heldur og til að treysta Guði rétt eins og Jósef gerði þegar hann tók engilinn á orðinu og gekkst við kraftaverkinu sem leiddi frelsara heimsins inn í þennan heim.“