Laugardagur 21. 12. 13
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði í dag áherslu á að með framlagi sínu til að greiða fyrir kjarasamningum til næstu 12 mánaða vildi ríkisstjórnin draga úr óvissu. Að ná því markmiði er höfuðskylda stjórnvalda og hefur ríkisstjórnin styrkt stöðu sína verulega með því sem gerst hefur í aðdraganda jólahátíðarinnar. Hún hefur rekið af sér slyðruorðið með skuldaleiðréttingu, hallalausum fjárlögum og framlagi sem dugði til að ritað er undir kjarasamninga.
Ríkisstjórninni ber nú að nota svigrúmið sem hún hefur skapað til að aflétta gjaldeyrishöftunum. Ég skrifaði í dag pistil á Evrópuvaktina þar sem ég minni á að Steingrímur J. Sigfússon taldi sér óhætt að hækka skatta af því að enginn kæmist úr landi vegna gjaldeyrishaftanna. Hann leit með öðrum orðum á höftin sem átthagafjötra sem hann gæti nýtt sér til skattpíningar. Hann hafði aldrei neinn áhuga á að aflétta höftunum og samfylkingarfólkið vildi nota þau til að knýja á um aðild að ESB.
Hvorugur núverandi stjórnarflokka hefur á áhuga á að nýta höftin í flokkspólitískum tilgangi. Þeir hljóta að vinna markvisst að afnámi þeirra.
Andrúmsloftið á alþingi breyttist við brottför Jóhönnu Sigurðardóttur þaðan. Fyrir ári sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sig úr Samfylkingunni til að mótmæla Jóhönnu og ríkisstjórn hennar. Í andrúmsloftinu undir stjórn Jóhönnu hefði aldrei verið samið á þennan hátt. Steingrímur J. taldi sig hafa hannað hið fullkomna skattkerfi og hefði ekki fallist á að því yrði breytt.