23.12.2013 22:40

Mánudagur 23. 12. 13

Af kynningarmynd um 30 ára afmælishátíð FFT sem birt er í sjónvarpinu af Hörpu sést vel hve mikil skemmd það er á útliti þessarar margverðlaunuðu byggingar að leyfa ljósadýrð í verslun á neðstu hæð í austurhorni hússins. Það er hreinlega ótrúlegt að Ólafur Elíasson eða arkitektar hússins hafi samþykkt þessa afskræmingu á ytra byrði Hörpunnar svo að ekki sé minnst á þá sem bera ábyrgð á rekstri hússins. Það er ekki nóg með að þessi verslun afskræmi útlit Hörpunnar heldur eru innviðir hennar á skjön við naumhyggju og stílhreint yfirbragð innan veggja hússins. Hvers vegna er þetta stílbrot leyft á þessum stað?

Hafsteinn Þór Hauksson, ritstjóri Tímarits lögfræðinga, undrast í leiðara í nýjasta hefti þess hvernig lögfræðingar í slitastjórnum föllnu bankanna geti unnið 190 stundir á mánuði að meðaltali í slitastjórnunum auk þess að gegna öðrum lögfræðistörfum. Þá bendir hann á hið háa tímagjald sem lögfræðingarnir taka fyrir vinnu sína, það sé úr takti við það sem almennt tíðkist. Ekki sé unnt að réttlæta þessar háu greiðslur með því að kröfuhafar séu erlendir og kippi sér ekki upp við að greiða háa reikninga.

 „Í þessu tilfelli sem við erum að tala um þá erum við að tala um opinbera sýslunarmenn, sem starfa vegna þess að þeir eru skipaðir til þess af héraðsdómi. Og þeir verða auðvitað bara að vinna sín verk af heiðarleika og fagmennsku en ekki út frá því sjónarhorni hvað þeir gætu hugsanlega komist upp með,“ sagði Hafsteinn Þór við sjónvarp ríkisins í kvöld.

Hugleiðing Hafsteins Þór er réttmæt. Af því sem gerst hefur eftir að bankarnir voru teknir til gjaldþrotaskipta fyrir um það bil fimm árum vekur ekki síst athygli hve langan tíma tekur að komast til botns í uppgjöri vegna þeirra og þetta verður enn undarlegra ef lögfræðingar vinna að þessum málum 190 klukkustundir á ofurlaunum mánuðum saman. Hver er framleiðnin? Hin hliðin á málinu er sú sem Samkeppniseftirlitið hefur nefnt til sögunnar og lýsti á þennan veg í júní 2011:

„Umsýsluvandi“ (Freistnivandi I). Hann endurspeglast í því að þeir aðilar sem starfa við að leysa úr vandamálunum hafa af því talsverðar tekjur og byggja lifibrauð sitt á því. Þrátt fyrir góðan ásetning vinna hagsmunir þeirra af tekjuöflun og atvinnuöryggi gegn hagsmunum samfélagsins af hraðri úrlausn.  Hér eiga í hlut skilanefndir, starfsmenn í úrlausnarferlum bankanna, starfsmenn viðkomandi fyrirtækja o.fl.