Sunnudagur 08. 12. 13
Flugum með Icelandair til Amsterdam og tókum þaðan lest til Brussel. Hér verð ég í fáeina daga vegna málefna tengdum NATO - alls ekki ESB.
Átta manna sendinefnd Reykjavíkurborgar undir formennsku Jóns Gnarrs borgarstjóra var einnig á leiðinni hingað til Brussel í dag en hópurinn fór aðra leið en við.
Einkennilegt er að enginn sem fjallað hefur um bók Össurar Skarphéðinssonar hefur minnst á deilurnar um NATO í Jóhönnu-stjórninni. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vildi spara 500 milljónir kr. með því að hætta allri NATO-tengdri starfsemi á vegum innanríkisráðuneytisins. Össur hafði betur í þeirri rimmu við ríkisstjórnarborðið.
Ögmundur skýrði aldrei frá þessari sparnaðartillögu sinni opinberlega og hún hefur legið í þagnargildi fram að útgáfu bókar Össurar. Allir sem er annt um öryggi Íslands sjá að tillaga Ögmundar var flutt af pólitískri skemmdarfýsn. Samþykkt hennar hefði stórskaðað hagsmuni Íslands og gert þjóðina endanlega marklausa í öllum umræðum um öryggismál.
Ég skrifa ekki um þennan þátt í bók Össurar í umsögn um hana í næsta hefti Þjóðmála. Þar einskorða ég mig við stkjórnarmyndunina 2009 og lít í bók Össurar, Steingríms J. og Jónínu Leósdóttur um samband hennar við Jóhönnu.