22.11.2013 23:40

Föstudagur 22. 11. 13

Meirihlutinn í öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt breytingar á þingsköpum til að hindra að minnihlutinn í deildinni geti beitt málþófi til að tefja framgang ákvarðana Bandaríkjaforseta um skipan manna í embætti. The New York Times segir að þetta sé aðeins toppurinn á ísjakanum. Þingmenn deili um allt, stórt og smátt. Líkur séu á að ekki takist samkomulag um fjárlög í desember og þess vegna verði enn á ný að skrúfa fyrir opinbera þjónustu á næsta ári vegna fjárskorts.

Eftir rimmuna um fjárlögin fyrir nokkrum vikum þegar menn töldu að repúblíkanar hefðu gengið lengra en góðu hófi gegndi og ofboðið almenningi beinast spjótin nú að Barack Obama Bandaríkjaforseta. Í nýjasta hefti af The Economist birtist mynd af Obama sem sýnir hann sökkva í sæ undir fyrirsögninni: Maðurinn sem gekk venjulega á vatni.

Seinna kjörtímabilið er mun erfiðara Obama en hið fyrra. Í dag er hugur Bandaríkjamanna hins vegar við annað, 50 ára minningardag morðsins á John F. Kennedy. Á öllum sjónvarpsstöðvum fyrur utan ríkissjónvarpið íslenska eru minningamyndir um Kennedy og/eða upphaf fjögurra þátta raðar um Kennedy-fjölskylduna.

Í ríkissjónvarpinu á Íslandi er sýnd myndin Boðorðin tíu þar sem Charlton Heston leikur Móses. Myndin var gerð 1956 en tæknilegt útlit hennar hefur greinilega verið endurbætt. Sýningin tengist örugglega þáttaröðinni um sögu kvikmyndanna – sú saga er ríkissjónvarpinu ofar í huga en sagan tengd Kennedy.