11.12.2013 23:55

Miðvikudagur 11. 12. 13

Tókum lest síðdegis frá Brussel til Parísar, Thalys-hraðlest, sem er um 80 mínútur á leiðinni frá Brussel Midi til Paris Nord. Þegar við komum á brautarpallinn í París var öllum beint í öfuga átt og sagt að það hefði fundist taska án eigenda. Heyrðum við mikinn hvell þegar hún var sprengd.

Það var nokkur þraut að komast út úr þessari risastóru brautarstöð á háannatíma og þurfa að fara alls kyns krókaleiðir. Minnist ég þess varla að hafa áður verið í slíkum mannfjölda sem allur var á iði eða jafnvel hlaupum. Allt hafðist þetta að lokum en á einum stað þurftum við aðstoð varðar við að komast í gegnum eitt að hliðunum í stöðinni.

Mikill var mannfjöldinn á brautarstöðinni í Brussel en aðeins lítið brot af því sem var í París og þröngin var ekki minni á götunum fyrir utan stöðina í París - fór ekki á milli mála að við vorum komin til réttnefndrar stórborgar.

Í kvöld voru tveir þættir mínir um bækur frumsýndir á ÍNN, viðtal við Óskar Jóhannsson kaupmann um bók hans Bernskudaga og viðtal við Aðalstein Ingólfsson um bók hans Karólínu. Þættir verða sýndir á tveggja tíma fresti til 18.30 fimmtudaginn 12. desember og síðan að nýju um næstu helgi.