2.7.2016 19:00

Laugardagur 02. 07. 16

Guðni Th. Jóhannesson ætlar að nota þennan mánuð til að máta sig í forsetaembættið með yfirlýsingum um hitt og þetta, nú síðast innflytjendamál. Það er einkennilegt að hann kýs að viðra áhuga sinn og skoðanir á þeim málum á svona áberandi hátt eftir kosningarnar í stað þess að ræða málið við kjósendur fyrir kjördag.

Má segja að hann hafi kastað sér í djúpu laugina með því að blanda sér í þá ákvörðun ráðamanna Laugarneskirkju með samþykki biskups að breyta kirkjunni í brottfararstað hælisleileitenda sem hafði verið kynnt að þeir yrðu fluttir úr landi í samræmi við löglega ákvörðun yfirvalda.

Nú er okkur sagt að það skorti „mannúð“ við töku ákvarðana um hælisleitendur og það sé ómannúðlegt að sannreyna hvort þeir segi satt um aldur sinn.

Lög hafa verið sett um útlendingamál. Ný lög með samstöðu þingmanna úr öllum flokkum sem lögðu sérstaka áherslu á gildi samstöðunnar í þessum málum. Unnið hefur verið að því að móta þessar reglur á þann veg að ná sem mestri sátt. Að forráðamenn þjóðkirkjunnar, Rauða krossins og nú nýkjörinn forseti gangi fram fyrir skjöldu til að boða kenningu um að hér skorti „mannúð“ í þessum málaflokki vekur spurningu um hver sé hinn raunverulegi tilgangur upphlaupsins.

Í umsögn lögreglustjóra um frumvarpið að nýju útlendingalögum var varað við að  „sú mikla áhersla sem lögð er á mannúð í frumvarpinu […] grafi undan öryggissjónarmiðum sem lögreglu ber að hafa í forgangi“ ekki síst á tímum þegar sýnt er „að flóttamenn séu hagnýttir í ólögmætum tilgangi af glæpahópum“.

Afstaða lögreglustjóranna um hvernig flóttamenn koma til Evrópu er reist á mati Europol, Evrópulögreglunnar, sem segir að um 90% þeirra sem koma geri það með aðstoð smyglara. Gjaldið sem þeir taki hafi allt að þrefaldast eftir að leiðinni um Tyrkland til Grikklands og þaðan norður Evrópu lokaðist. Á fyrri hluta þessa árs hafa fleiri drukknað í Miðjarðarhafi á leiðinni frá N-Afríku til Evrópu en nokkru sinni fyrr á sambærilegu tímaskeiði.

Þegar rætt er um þessi mál þarf að segja alla söguna en ekki leika á tilfinningar fólks.