5.7.2016 10:30

Þriðjudagur 05. 07. 16

Einhvers staðar var sagt að Frakkar ætluðu að tileinka sér Húh! hróp stuðningsmanna íslenska karlalandsliðsins. Þar sem stafurinn er almennt hljóðlaus í frönsku verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig til tekst. Nú eru þrír leikir eftir á EM 2016, skemmtilegast yrði ef Frakkar og Walesbúar kepptu til úrslita á sunnudag.

Magnús Guðmundsson, einn leiðarahöfunda Fréttablaðsins, segir skoðun blaðsins mánudaginn 4. apríl á sameiginlegri yfirlýsingu Lilju D. Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og Roberts OWorks, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Magnús er eindregið andvígur því að formlega sé settur rammi utan um varnarsamstarfið á grundvelli varnarsamningsins frá 1951, rammi sem tekur mið af núverandi stöðu mála. Magnús misskilur eða rangtúlkar yfirlýsinguna vísvitandi þegar hann segir ákvörðunina um að gefa hana út „risavaxna“. Yfirlýsingin felur ekki í sér neina efnisbreytingu.

Magnús telur það ljóð á ráði utanríkisráðherra að hafa skrifað undir yfirlýsinguna án opinnar umræðu „bæði kjörinna fulltrúa, sem Lilja er reyndar ekki, sem og auðvitað þjóðarinnar sem á að fá að hafa sitt að segja í þessum efnum í opinni og almennri umræðu um málið“. Innskotið um að Lilja sé ekki kjörinn fulltrúi er marklaust sé því ætlað að draga úr gildi umboðs hennar til að rita undir yfirlýsinguna, það er fullt og óskorað. Auk þess hófst undirbúningur að yfirlýsingunni í tíð Gunnars Braga Sveinssonar sem utanríkisráðherra en hann vakti oftar en einu máls á breytingunni á öryggisumhverfi Íslands án þess að t.d. Fréttablaðið sýndi orðum hans eða annarra um svipað efni þann áhuga að stofna til almennrar umræðu. Það er í samræmi við annað að af blaðsins hálfu skuli nú kvartað undan skorti á umræðu!

Kenningin um að ekkert skuli gert til að tryggja hernaðarlegt öryggi Íslands hefur lengi verið reist á þeim rökum að varnarleysi þjóðarinnar kallaði fram friðsamlegt umhverfi hennar. Nú eru 10 ár síðan varnarliðið hvarf úr landinu. Leiddi brottförin til þess að kenningin um friðsamlega umhverfið rættist? Nokkrum mánuðum eftir brottförina hófu Rússar herflug í nágrenni landsins og nú eru kafbátaumsvif þeirra í nágrenni landsins meiri en þau hafa verið í 30 ár. Kenningin kolféll þegar á reyndi.