30.7.2016 14:30

Laugardagur 30. 07. 16

Ár og dagur er síðan ég hlustaði á þáttinn Í vikulokin í ríkisútvarpinu. Stundum fór ég í hann á sínum tíma þegar Páll Heiðar Jónsson sjórnaði honum og allt var þar í föstum skorðum varðandi fréttir vikunnar. Nú virðist þátturinn snúast um það sem stjórnanda hans á hverjum tíma er efst í huga og velur hann viðmælendur til að draga fram einhverja skoðun á því.

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins í dag var sagt frá því að í morgun hefði Helgi Seljan, stjórnandi Í vikulokanna, rætt um verðtryggingu við þingmann Framsóknarflokksins til að fá það alveg á hreint að Sjálfstæðisflokkurinn hefði staðið gegn afnámi hennar í stjórnarsamstarfinu. Jánkaði þingmaðurinn því og sagðist ef til vill ætla að flytja tillögu um afnám verðtryggingarinnar á haustþingi. Líklega verður fyrir kosningar í von um að geta aflað sér einhverra atkvæða á því.

Þessi verðtryggingarmál hafa lengi verið hjartans mál framsóknarmanna eða í þau tæpu 40 ár sem liðin eru frá því að Ólafur Jóhannesson, þáv. leiðtogi framsóknarmanna og forsætisráðherra, samdi lagabálkinn um þau við eldhúsborðið heima hjá sér. Voru lögin gjarnan nefnd Ólafslög honum og framsóknarmönnum til heiðurs.

Verðtryggingarlögin reyndust vel í stríðinu við verðbólguna. Takist að sigrast á henni og halda henni niðri eins og gerst hefur undanfarið undir fjármála- og efnahagsstjórn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, verða lögin sjálfkrafa óþörf þótt þau gildi sem neyðarvopn gegn verðbólgudraugnum.

Ég veit ekki hvort Helgi Seljan spurði þingmann Framsóknarflokksins hvort ekki væri unnt að ákveða kjördag í haust vegna andstöðu framsóknarmanna. Það er í raun miklu brýnni spurning en hin um verðtrygginguna og sjálfstæðismenn. Raunar er erfitt að skilja að stjórnmálamenn telji sér til framdráttar að deila um hvort leita skuli umboðs kjósenda fyrr en seinna eftir að ákveðið hefur að kjósa áður en kjörtímabilð er á enda og það fyrir lok október.

Ég vil vekja athygli lesenda síðu minnar á stórmerkri grein um ástandið í Tyrklandi eftir Bassam Tibi, prófessor í Þýskalandi, sem birtist á íslensku á www.vardberg.is og lesa má hér.