29.7.2016 13:30

Föstudagur 29. 07. 16

Meginatriði í umræðum hér á landi um Icesave-málið og uppgjörið við kröfuhafana hefur verið að Íslendingar beri ekki ábyrgð á skuldum annarra. Þeir sem tekið hafi áhættu í fjármálum verði að bera skaðann eins og þeir njóti hagnaðar verði hann. Að þetta meginatriði stangist á við það sem gildir á evru-svæðinu hefur öllum verið ljóst sem ekki eru blindaðir af evru-samstarfinu.

Nú hefur eftirlitsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sent frá sér skýrslu þar sem finna má harða gagnrýni á æðstu stjórnendur sjóðsins fyrir að ganga erinda evrunnar og beita blekkingum í því skyni.

Ambrose Evans-Pritchard, blaðamaður The Daily Telegraph, segir á vefsíðu blaðsins föstudaginn 29. júlí að æðstu stjórnendur AGS hafi blekkt eigin stjórn, gerst sekir um margar mjög skaðvænlegar ákvarðanir i Grikklandi, orðið ákafar klappstýrur í þágu evru-samstarfsins, haft merki um yfirvofandi kreppu að engu og sameiginlega verið um megn að skilja grunnkenningu að baki myntsamstarfinu.

Óréttlæti rangra ákvarðana AGS-stjórnendann birtist meðal annars í því að almennir grískir borgarar hafi verið látnir sitja uppi sem ábyrgðarmenn á skuldum bankanna, þeir sem minnsta burði höfðu til að greiða skuldirnar. Það hafi aldrei verið viðurkennt opinberlega að helsta markmið þríeykis ESB, seðlabanka evrunnar og AGS hafi verið að verja myntsamstarfið. Grikkjum hafi hvað eftir verið kennt um mistök sem rekja mátti til evru-stefnunnar sjálfrar. Í skýrslunni sé loksins viðurkennt að komið hafi verið fram við Grikki af ósanngirni.

„Hafi markmiðið fyrst og síðast verið að koma i veg fyrir að skuldavandinn [í Grikklandi] yrði að alþjóðlegum vanda, hefði kostnaðurinn við varnir gegn því átt að hafa verið borinn – að minnsta kosti að hluta – af alþjóðasamfélaginu sem átti mestra hagsmuna að gæta,“ segir í skýrslunni.

Ambrose Evans-Pritchard var á sínum tíma ómyrkur í máli þegar hann gagnrýndi aðför þríeykisins að Grikkjum sem höfðu engin önnur úrræði en það sem sumir kalla „innri gengisfellingu“, þar er niðurskurð samhliða hækkun skatta, ekki gátu þeir lækkað gengið eða tekið stjórn efnahagsmála alfarið í eigin hendur. Grein sinni lýkur Ambrose Evans-Pritchard á orðunum: Better late than never. Betra er seint en aldrei.