15.7.2016 14:15

Föstudagur 15. 07. 16

Samskipti Kaffitárs við opinbera hlutafélagið ISAVIA hafa verið sérkennileg undanfarin misseri. ISAVIA hafnaði tilboði Kaffitárs um að reka áfram veitingastað í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Kaffitár bað um skýringar en fékk ekki. Loks leitaði Kaffitár til dómstóla og hæstiréttur sagði Kaffitár eiga rétt á umbeðnum upplýsingum. Enn neitaði ISAVIA en lét undan eftir að dómari skipaði sýslumanni að sjá til þess að Kaffitár fengi gögnin.

Á vefsíðu ISAVIA má í dag lesa frétt um að ISAVIA hafi í morgun boðsent gögnin á skrifstofu Kaffitárs þar sem tekið hafi verið við þeim.

Í fréttinni segir ISAVIA að samkeppniseftirlitið hafi varað við afhendingu gagnanna og viðtöku í því kynni að felast brot á samkeppnislögum. Í fréttinni segir:

„Þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi varað við því að Isavia gæti gerst brotlegt við samkeppnislög með afhendingu gagnanna, taldi fyrirtækið sér ekki annað stætt en að verða við úrskurði héraðsdóms þar um. Það er þá á ábyrgð Kaffitárs að hafa tekið við gögnunum, en Samkeppniseftirlitið telur að viðtakan geti falið í sér brot á samkeppnislögum.“

Afskipti samkeppniseftirlitsins af miðlun gagnanna frá ISAVIA gera málið enn skrautlegra. Telur eftirlitið að héraðsdómur hafi framið lögbrot með því að verða við tilmælum Kaffitárs? Dómarar eiga síðasta orðið um hvort lög eru brotin eða ekki.

Þessa meginreglu um hlutverk dómara er mikilvægt að hafa í heiðri. Innan stjórnsýslunnar geta menn leitað álits æðra stjórnvalds telji þeir ranglega staðið að málum. Þetta á til dæmis við um tímabundna lausn frá störfum eins og sagt var frá í fréttum nýlega varðandi tímabundna brottvísun lögreglumanns á höfuðborgarsvæðinu. Innanríkisráðuneytið reyndist ósammála lögreglustjóranum um hvert væri meðalhóf í máli lögreglumannsins og taldi að lögreglustjórinn hefði átt að treysta á betri gögn en orðróm við töku ákvörðunar sinnar.

Að aðilar innan stjórnsýslunnar séu ósammála um hvað sé meðalhóf er ekki óalgengt enda er um matskennda reglu að ræða og æðra stjórnvaldið hefur oft aðgang að meiri gögnum en hið lægra þegar það úrskurðar í málinu. Að í ágreiningi um slíka matskennda hluti felist eitthvert vantraust á lægra setta stjórnvaldinu er af og frá. Það væri eins og menn teldu það vantraust á héraðsdómara að hæstiréttur kæmist að annarri niðurstöðu en hann.