23.7.2016 13:30

Laugardagur 23. 07. 16

Einkennilegt er hve mörgum er gjarnt að breyta öllu sem upp kemur í samfélaginu í pólitískt ágreiningsmál og fara með það á þeim forsendum í fjölmiðla og auk þess krefjast afskipta alþingis eða ráðherra. Þetta gerist á sama tíma og stjórnmálamönnum er gjarnan hallmælt og þeir taldir óhæfir til að taka ákvarðanir. Um álitamálin gilda auk þess almennt lög og reglur sem öllum ber að fylgja.

Ef til vill má rekja megi þessa þróun til breyttrar umræðuhefðar á alþingi. Í upphafi hvers fundar er svigrúm fyrir þingmenn til að viðra skoðanir sínar á stóru og smáu sem sagt er frá í fréttum þann daginn. Reyna þingmenn að komast sjálfir í fréttir með því sem þeir segja í þessum „frjálsa tíma“.

Þrjú ólík mál eru nú á döfinni sem nefna má í þessu samhengi:

Í fyrsta lagi að hvítabjörn frá Grænlandi gekk á land skammt frá Hvalsnesi á Skaga og var sem betur fer skotinn við fyrsta tækifæri. Eftir á hafa menn komið fram með kenningar um að öðru vísi hefði átt að standa að málum. Þessi öðru-vísi-aðferð var reynd á sínum tíma með afskiptum þáverandi umhverfisráðherra og rann einfaldlega út í sandinn. Hvers vegna að gera þetta að pólitísku máli að nýju?

Í öðru lagi má nefna ágreining milli viðbragðsaðila á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum (í annað sinn) um hvaða aðferð skuli beitt við að skýra frá kynferðisbrotum á þjóðhátíð í Eyjum. Ágreiningurinn er sagður snúast um ólíkt mat sérfróðra á hvað sé þolendum kynferðisofbeldis fyrir bestu. Fimm hljómsveitir sem höfðu samið um að koma fram á hátíðinni kusu að breyta ágreiningnum í pólitískt hótunarmál og leita síðan ásjár bæjarstjóra Vestmannaeyja. Lausn með óljósu orðalagi fannst.

Í þriðja lagi er síðan umræða um nýtt sjúkrahús í Mosfellsbæ. Fullnægi þeir sem að sjúkrahúsinu standa lögbundnum skilyrðum ber viðkomandi yfirvöldum að veita þeim starfsleyfi hvað sem einstökum þingmönnum finnst. Fyrsta skrefið var að tryggja land undir nauðsynleg mannvirki. Næsta skref er að skapa starfsumgjörðina að öðru leyti. Það er gleðiefni að ekkert hefur verið rætt um málið við stjórnmálamenn eða embættismenn. Þeir hafa þá ekki gert sig vanhæfa við formlega afgreiðslu málsins. Þar ber þeim að fara að lögum og reglum hvað sem skoðunum þeirra líður.