13.7.2016 16:30

Miðvikudagur 13. 07. 16

David Cameron kvaddi neðri deild breska þingsins í dag sem forsætisráðherra. Andrúmsloftið í þingsalnum minnti á það sem gerist í klúbbum. James Kirkup, álitsgjafa hjá The Telegraph, þótti nóg um í dálki sem hann ritaði á vefsíðuna í dag. Hann lauk henni með þessum orðum:

„I'm not saying Mr Cameron should go out in sackcloth and ashes, but politics shouldn't be a cosy club. It should be a fight, a contest of ideas and arguments and policies.  David Cameron fought many such battles and won a good many of them, even if he lost the last one on Europe.  His last day in the Commons should have rehearsed and aired those arguments, MPs criticising and praising him as they saw fit and as voters would want, with Mr Cameron giving a full account of himself. If he and his fellow MPs really wanted to do their duty today, they should have made sure he went out fighting.“

Ég íslenska ekki þennan texta en hann fellur vel að skoðun minni á hvernig staðið skuli að verki í þingum og sveitarstjórnum. Ég tek einnig undir með Kirkup þegar hann segir að þetta viðhorf sitt sé síður en svo vinsælt hjá öllum. Flestir fagni þegar stjórnmálamenn beri lof hver á annan og telji það þjóðlífinu til hagsbóta.

Ekkert segir að það sé rétt. Málið snýst um að klúbburinn kveður félaga í þeirri von eðs vissu að hver og einn klúbbfélagi njóti sama heiðurs.

Hvergi hefur þetta líklega gengið lengra en í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar var Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, kvödd með samþykkt ályktunar um viðskiptabann á Ísrael. Vegna harðrar gagnrýni, skorts á rökum og þess hve ályktunin var vitlaus rann hún út í sandinn og varð flutningsmönnum og samþykkjendum til skammar.

Krafan um klúbbandrúmsloftið tók á sig einkennilega mynd í nýlegri forsetakosningabaráttu þegar ýmsum þótti goðgá og um það var rætt í hneykslunartóni að Davíð Oddsson vildi beina athygli að skoðunum og ummælum Guðna Th. Jóhannessonar sem snertu sögu, metnað og stöðu þjóðarinnar út á við. Megi ekki draga fram andstæðar skoðanir þegar kosið er á milli manna er gengið lengra en góðu hófi gegnir.