12.7.2016 16:00

Þriðjudagur 12. 07. 16

Theresa May verður næsti forsætisráðherra Breta. Að hún hafi verið innanríkisráðherra í sex ár, lengur en nokkur annar í 60 ár, sýnir að mikið er í hana spunnið. Hún sýndi klókindi í Brexit-málinu. Var höll undir sjónarmið úrsagnarsinna þar til atkvæðagreiðslunnar var boðað og ráðherrar urðu að taka af skarið. Þá lýsti hún stuðningi við aðild. Hvort hún gerði það til að halda embætti sínu ef málstaður Davids Camerons nyti stuðnings meirihlutans er óvíst, hún gerði það örugglega alls ekki til að verða forsætisráðherra eftir að Cameron neyddist til að segja af sér vegna meirihlutasigurs úrsagnarsinna fimmtudaginn 23. júní. Það kom May og Cameron báðum í opna skjöldu.

Menn geta sigrað í kosningum þótt þeir tapi kosningabaráttunni eins og sannaðist hér 25. júní. Menn geta einnig unnið kosningar en tapað eftirleiknum eins og sannast hefur rækilega hjá breskum úrsagnarsinnum eftir 23. júní. Hrakför þeirra hefur tekið á sig ýmsar myndir en einkum snúist um þrjá einstaklinga innan þingflokks íhaldsmanna: Boris Johnson, Michael Gove og Andrea Leadsom. Í fyrstu lotu rofnaði bandalag Johnsons og Goves, í annarri lotu skýrðist að Leadsom er ekki leiðtogaefni, í þriðju lotu var May sjálfkjörin eftir uppgjöf Leadsom.

Alastair Campell almannatengli er oft lýst sem manninum á bakvið velgengni Verkamannaflokksins undir Tony Blair. Hann sagði á Twitter 11. júlí þegar May varð sjálfkjörin flokksformaður:

„So there we are. A referendum that was about the people choosing our leaders has led to a new PM being decided by one very silly interview.“  - „Þá er svona komið. Þjóðaratkvæðagreiðsla sem snerist um að fólkið veldi leiðtoga okkar hefur leitt til þess að nýr forsætisráðherra er ákveðinn með vísan til eins kjánalegs viðtals.“

Viðtalið sem um ræðir var við Leadsom og birtist sunnudaginn 10. júlí í The Sunday Times undir fyrirsögninni: Being a mother gives me edge on May — Leadsom – Að ég er móðir gefur mér forskot á May – Leadsom. Síðan sagði í upphafi viðtalsins: „Tory minister says she will be better leader because childless home secretary lacks ‘stake in future'“. Íhaldsráðherra [Leadsom] segist verða betri leiðtogi vegna þess að barnlausan innanríkisráðherrann skorti „eign í framtíðinni“.

Enn einu sannast að stjórnmálin eru spennandi vegna þess að enginn veit hvernig þau þróast.