19.7.2016 12:00

Þriðjudagur 19. 07. 16

Aldrei er auðvelt að fóta sig á svelli stjórnmálanna. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri vefsíðunnar Kjarninn, reynir það í hugleiðingu á síðunni þriðjudaginn 19. júlí þar sem hann dregur stjórnmálamenn og flokka í dilka og skipar sér sess fyrir ofan þá enda sjái hann hlutina í stóra samhenginu. Þeir sem hafa reynslu af stjórnmálastarfi þykja slíkar æfingar forvitnilegar en þær eru einkum fóðurgjöf fyrir aðra álitsgjafa því að kjarni málsins er að það eru atvik og atburðir sem ráða mestu um framvindu stjórnmálanna. 

Afstaða fólks til stjórnmálamanna mótast af mati á viðbrögðum þeirra við því sem að höndum ber. Viðbrögðin ráðast af stjórnmálaskoðunum eins og sannaðist þegar Steingrímur J. Sigfússon notaði hrunið til að innleiða hér sósíalíska skattastefnu sem lengi hafði verið draumur hans en reyndist martröð annarra og olli skaða í hagkerfinu. Þá notaði Jóhanna Sigurðardóttir hrunið til að viðra sérviskulegar hugmyndir sínar í stjórnarskrármálum. Loks var það síðan ESB-aðildarumsóknin en vegna hennar kynnist þjóðin svartasta skeiðinu í sögu íslensku utanríkisþjónustunnar vegna misheppnuðustu stefnumótunar stjórnvalda í utanríkismálum.

Í grein sinni segir Þórður Snær meðal annars að fólkið sé orðið þreytt á „að hlusta á pilsfaldarkapitalista í hugmyndafræðilegu gjaldþroti setja fram tillögur um að aðlaga þurfi menntakerfið að frumatvinnuvegunum og því Íslandi sem var, í stað þess að arðsemi auðlindanna verði notuð til að skapa það land sem fólkið vill búa í og þau atvinnutækifæri sem það kýs að spreyta sig á til frekari verðmætasköpunar. Það er orðið þreytt á upphrópunum á ómálefnalegum klisjum sem eru aldrei studdar neinum rökum, heimildum eða gögnum“. 

Hér hefði verið æskilegt að Þórður Snær skýrði mál sitt með dæmum. Án þeirra er þessi texti einmitt til marks um það sem hann er að gagnrýna, upphrópanir sem missa marks. Hverjir eru það sem kynna tillögur um að aðlaga menntakerfið sjávarútvegi og landbúnaði, hinum hefðbundnu frumatvinnuvegum? Hvernig birtist andstaðan við að nýta „arðsemi auðlindanna“ til að skapa land sem kallar á búsetu fólks?

Í boðskap Þórðar Snæs gætir sömu óvildar og víðar má sjá í garð þeirra sem eldri eru og hafa ríka reynslu af stjórnmálastörfum. Sorglegustu dæmin um að illa fari í stjórnmálasögunni er að hafa reynslu og það sem sagan geymir að engu.