8.7.2016

Kalda matið hlýtur að ráða í öryggismálum

Morgunblaðsgrein 8. júlí 2015

Allar Norðurlandaþjóðirnar líta nú í eigin barm í öryggismálum, leggja mat á hagsmuni sína og greina nauðsynlegar aðgerðir til að gæta þeirra. Danska varnarmálaráðuneytið gaf á dögunum út 248 bls. skýrslu um framtíðarverkefni sín á norðurslóðum. Þar er sérstaklega litið til næstu nágranna okkar í austri og vestri, Færeyinga og Grænlendinga. Eðlilega kemur Ísland mikið við sögu í skýrslunni og þá sérstaklega Keflavíkurflugvöllur, samvinna Dana við Landhelgisgæslu Íslands og íslensk flugmálayfirvöld, ISAVIA. 

Danska ráðuneytið tekur að sjálfsögðu mið af því að íslenskar stofnanir geta aðeins átt aðild að borgaralegri starfsemi. Frá öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli geta bandamenn Íslendinga á hinn bóginn haldið úti eigin hernaðarlegri starfsemi. Borgaralegi þátturinn í skýrslunni er mikilvægur, hann lýtur að leit og björgun, hvers kyns neyðartilvikum og varðstöðu gegn mengun hafsins. 

Í öllu sem sagt er um Austur-Grænland og verkefni danska varnarmálaráðuneytisins þar er tekið fram að treysta verði á aðstöðu á Íslandi og aðstoð íslenskra aðila. Jafnframt er áréttað að við leit og björgun úr lofti í nágrenni Færeyja verði að treysta á flugvélar frá Íslandi og Skotlandi. 

Af skýrslunni er ljóst að eftirlitsflugvélin Sif og varðskipið Þór gera Íslendinga gjaldgenga í öllum aðgerðum varðandi leit og björgun og mengunareftirlit á hafinu frá Grænlandi til Færeyja. Þá er hugmynd um að leigja Þór til borgaralegra verkefna við Austur-Grænland reifuð. Auk þess er vikið að nauðsyn þess að nýtt eftirlitskerfi Dana með siglingum verði innleitt af Landhelgisgæslunni hér og Danir fái aðgang að fjarskipta- og ratsjárkerfum hér á landi. 

Yfirlýsing með Bandaríkjamönnum

Þessi danska skýrsla var birt tveimur dögum (27. júní) áður en Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Lilja D. Alfreðsdóttir rituðu undir sameiginlega yfirlýsingu um samstarf á sviði varnarmála. Vinna við yfirlýsinguna hófst í tíð Gunnars Braga Sveinssonar sem utanríkisráðherra og var kynnt utanríkismálanefnd nú fyrir þinglok. Markmið hennar er að „formfesta“ breytingar á tímabundinni viðveru bandarísks herafla á Keflavíkurflugvelli svo að vitnað sé til núverandi utanríkisráðherra. 

Breytingarnar felast einkum í fjölgun ferða bandarískra kafbátaleitarvéla hingað til lands. Hlutverk þeirra er að fylgjast með stórauknum umsvifum rússneskra kafbáta í hafinu umhverfis Ísland. 

Þeir sem bera ábyrgð á öryggismálum á N-Atlantshafi hafa áhyggjur af þessari þróun. Í fjölmiðlum víða í Evrópu var á dögunum vitnað í grein sem James Foggo, flotaforingi, yfirmaður 6. flota Bandaríkjanna, birti í tímariti Flotastofnunar Bandaríkjanna (U.S. Naval Institute) í byrjun júní undir fyrirsögninni: Fjórða orrustan um Atlantshafið. 

Flotaforinginn vísar í fyrirsögninni til sóknar rússneskra kafbáta út á Norður-Atlantshaf undanfarin misseri. Fyrsta orrustan var í fyrri heimsstyrjöldinni við þýska kafbáta, önnur orrustan var einnig við þýska kafbáta í annarri heimsstyrjöldinni. Þriðja orrustan var reiptogið milli kafbátaflota Bandaríkjamanna og Sovétmanna á höfunum umhverfis Ísland í kalda stríðinu. Á þeim árum tóku menn að ræða um GIUK-hliðið, varnarviðbúnað Vesturlanda gegn kafbátum sem náði frá Grænlandi um Ísland til Skotlands. Í grein sinni segir Foggo meðal annars: 

„Rússar vilja skapa sér vígstöðu á höfunum við Evrópu og þeir halda úti herafla utan landamæra Rússlands. Komið hefur verið á fót samtengdu kerfi rússneskra strand-eldflauga, orrustuþotna, loftvarnabúnaðar, herskipa og kafbáta sem ógnar nú öllum flotum á Eystrasalti og auk þess aðildarþjóðum NATO í Litháen, Eistlandi og Lettlandi – stjórnvöld ríkjanna ráða ekki yfir eigin ströndum nema leiðtogar Rússa leyfi þeim það. Komið var á fót svipuðu varnarvirki (anti-access/area-denial, A2/AD) á Svartahafi eftir að rússneskur herafli réðst inn í Úkraínu og tók Krím. Stöðugt fjölgar rússneskum hermönnum í Sýrlandi og Rússar hafa sett upp herstöðvar við Norður-Íshafið, hervætt og gert kröfu til stórs hluta þess í andstöðu við venjur alþjóðalaga. Á þennan hátt og með A2/AD hafa Rússar dregið úr getu okkar til að beita valdi okkar og aukið eigin áhrifamátt utan landamæra sinna. 

Rússar ráða nú yfir „stálboga“ frá Norður-Íshafi um Eystrasalt til Svartahafs. Við hann bætast víðtækar og tíðar eftirlitsferðir kafbáta um Norður-Atlantshaf og Noregshaf og herafli í fremstu víglínu í Sýrlandi. Þetta gerir Rússum kleift að skapa hættu fyrir næstum allan herflota NATO. Athafnasvæði flotans er ekki lengur látið í friði. Í fyrsta sinn í nærri 30 ár ber að líta á Rússland sem marktækt og áreitið flotaveldi.“ 

Leiðtogar NATO-ríkjanna koma saman í Varsjá í dag. Þess er ekki að vænta að í ályktun þeirra verði vikið sérstaklega að stöðu mála á N-Atlantshafi. Austurhluti og suð-austurhluti NATO eru nú í sviðsljósinu og elfing viðbúnaðar þar. 

Nauðsyn áhættumats

Nú eins og áður ræður úrslitum að íslensk stjórnvöld bregðist rétt við aðstæðum. Yfirlýsingin sem utanríkisráðherra ritaði undir með varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna er til marks um að raunsæi ræður afstöðu ríkisstjórnarinnar og utanríkismálanefndar alþingis sem ræddi yfirlýsinguna. 

Hvarvetna í nágrannalöndunum hafa stjórnvöld eða hugveitur staðið fyrir greiningarstarfi og skýrslugerð sem miðar að því að taka saman upplýsingar um þróun öryggismála og miðlun þeirra á opinberum vettvangi. Danska skýrslan sem að ofan er nefnd er nýjasta skjalið. 

Þegar alþingi samþykkti ályktun um þjóðaröryggisstefnu Íslands á dögunum þar sem aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru grunnstoðir var áréttuð nauðsyn þess að gert yrði áhættumat fyrir Ísland í stað þess sem fyrir liggur og er frá árinu 2009. Verði frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð samþykkt þegar þing kemur saman í ágúst hlýtur gerð nýs áhættumats að verða fyrsta verkefnið sem unnið er í nafni ráðsins. 

Eftir að fréttin um sameiginlega yfirlýsingu Íslands og Bandaríkjanna birtist leitaði Morgunblaðið álits fulltrúa þingflokkanna. Ásta Guðrún Helgadóttir, áheyrnarfulltrúi pírata í utanríkismálanefnd, sagði sannfærandi rök fyrir yfirlýsingunni: „Í ljósi þeirra aðstæðna sem eru uppi í heiminum núna, þá get ég ekki sett mig upp á móti þessu.[] Persónulega myndi ég ekki vilja hafa her í heiminum, heldur frið. Þegar það er ekki möguleiki verður maður að líta kalt á hlutina,“ sagði hún. 

Árin 10 sem liðin eru frá því að Bandaríkjamenn drógu herafla sinn frá Íslandi og lokuðu herstöð sinni í Keflavík sýna að hernaðarumsvif Rússa umhverfis Ísland hafa ekki minnkað við það. Herleysi er engin trygging fyrir að þjóðir búi við frið. Hjá því verður ekki komist „að líta kalt á hlutina“ þegar rætt er um öryggi á norðurslóðum um þessar mundir.